Plagg Wizz Air mögulega marklaust

Davíð telur að líklega hafi Wizz Air ekki virt skyldur …
Davíð telur að líklega hafi Wizz Air ekki virt skyldur sínar gagnvart farþegum. AFP

Plaggið sem farþegum tveggja véla Wizz Air sem lentu á Egilsstaðaflugvelli í gær var gert að skrifa undir kann að vera marklaust. Þrátt fyrir að farþegar hafi skrifað undir plaggið ætti það ekki að takmarka lágmarksréttindi þeirra. Þetta segir Davíð Örn Guðnason, lögmaður á lögmannsstofunni Löggarði. Davíð hefur sérþekkingu á sviði réttinda flugfarþega. 

Vélarnar áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli en vegna veðurs tók flugfélagið ákvörðun um að lenda á Egilsstaðaflugvelli. Farþegum sem ákváðu að fara út á Eg­ilsstaðaflug­velli var gert að skrifa und­ir plagg þar sem þeir af­söluðu sér rétti sín­um til bóta, ella yrði brott­för þeirra til­kynnt sem ör­ygg­is­brot.

„Hugsanlega var ekki staðið rétt að upplýsingagjöf í þessu tilviki. Í tilvikum aflýsinga eða seinkana á flugi þá ber flugrekendum, samkvæmt Evrópureglugerð 261/2004 um réttindi flugfarþega, að gefa þeim upplýsingar í samræmi við efni reglugerðarinnar. Til dæmis eiga þeir að gefa flugfarþegum rétt á að fá nýtt flug sem fyrst og reyna að upplýsa þá um  slíkan rétt sem fyrst og einnig að upplýsa þá um rétt þeirra til að fá uppihald eða gistingu ef þörf krefur í samræmi við efni reglugerðarinnar,“ segir Davíð. 

Umönnunar- og upplýsingaskylda hvílir á flugrekendum

Óviðráðanlegar aðstæður, svo sem óveður, breyta ekki þessum skyldum. „Það eru mismunandi reglur í reglugerðinni þegar óviðráðanlegar aðstæður koma upp. Ef óviðráðanlegar aðstæður koma upp þá þurfa flugrekendur að jafnaði ekki að greiða staðlaðar skaðabætur en þeir hafa hins vegar umönnunarskyldu og upplýsingaskyldu um að veita réttar upplýsingar,“ segir Davíð.

Spurður hvort flugfélagið sé skaðabótaskylt þar sem hugsanlega hafi ekki verið staðið rétt að upplýsingagjöf segir Davíð: „Ef farþegar verða fyrir tjóni vegna þess að ekki er staðið rétt að upplýsingaskyldu kann flugrekandinn að vera skaðabótaskyldur.“

Eins og áður segir var farþegum gert að skrifa undir plagg áður en þeir yfirgáfu vélina. Á plagg­inu sagði: „Ég staðfesti hér með að það er mín ákvörðun að yf­ir­gefa flug­ferð mína með of­an­greindu flugi og ég dreg mig út úr samn­ingi við Wizz Air sem laut að því að koma mér á upp­haf­lega staðsetn­ingu.“

Undirskrift takmarki ekki lágmarksréttindi

Davíð segir að þrátt fyrir að farþegar hafi skrifað undir ætti slík undirskrift ekki að takmarka lágmarksréttindi þeirra samkvæmt framangreindri reglugerð.

„Ef farþegar eiga bótarétt samkvæmt reglugerðinni  verður sá réttur að jafnaði ekki skertur sbr. fimmtándu grein reglugerðarinnar. Í þeirri grein er tilgreint að  um lágmarksrétt sé að ræða og að neytendur verða ekki bundnir við slíka samninga að lögum.“

Davíð Örn Guðnason, lögmaður á lögmannsstofunni Löggarði. Davíð hefur sérþekkingu …
Davíð Örn Guðnason, lögmaður á lögmannsstofunni Löggarði. Davíð hefur sérþekkingu á sviði réttinda flugfarþega.

Greinin er svohljóðandi:

„15. gr. Engar takmarkanir eða undanþágur frá skyldum

1. Ekki er unnt að takmarka eða fella niður skyldur flugrekanda við farþega samkvæmt þessari reglugerð, t.d. með undanþágu eða takmarkandi ákvæði í flutningssamningi.

2. Ef slíkri undanþágu eða takmarkandi ákvæði er engu að síður beitt gagnvart farþega eða ef farþega hefur ekki verið tilkynnt á réttan hátt um rétt sinn og hefur, af þeirri ástæðu, þegið lægri skaðabætur en þær sem kveðið er á um í þessari reglugerð getur farþeginn höfðað mál fyrir þar til bærum dómstólum eða stofnunum til að sækja viðbótarskaðabætur.“

Davíð starfaði áður hjá Samgöngustofu þar sem hann úrskurðaði aðallega í málum sem vörðuðu réttindi flugfarþega. Hann segir mál Wizz Air ekki einsdæmi. 

„Það er fjöldi fordæma fyrir því að vankantar hafi verið á upplýsingagjöf flugrekenda."

Farþegar geta í tilvikum sem þessum leitað réttar síns með því að hafa samband við lögmann eða með því að senda kvörtun til Samgöngustofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert