Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Skömmu fyrir klukkan tíu í gærkvöldi var tilkynnt um mann í „annarlegu ástandi“ með exi úti á Granda. Hann var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins og tvær axir haldlagðar.
Í dagbók lögreglu segir að áður hafi verið tilkynnt um öskrandi mann með exi, en sá hafi ekki fundist.
Skömmu eftir miðnætti fékk lögregla tilkynningu um mann sem var ósjálfbjarga sökum ölvunar. Ekki fengust upplýsingar um dvalarstað hans og því var hann vistaður í fangageymslu.
Lögreglan í Hafnarfirði var með eftirlit þar í bæ á 12. tímanum í gærkvöldi. Fimm ökumenn voru handteknir, grunaðir um að aka undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja.
Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna að tilkynnt var um útafakstur á Vesturlandsvegi rétt eftir klukkan níu í gærkvöldi. Engin meiðsl urðu á fólki en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, vörslu fíkniefna og að aka án réttinda, en hann mun aldrei hafa fengið ökuréttindi. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Þá var bifreið stöðvuð í Breiðholti um klukkan sjö í gærkvöldi, ökumaður hennar var grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna en hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Tilkynnt var um líkamsárás á veitingastað í hverfi 101 rétt fyrir klukkan tíu þar sem starfsmaður hafði verið sleginn í andlit og maður var handtekinn í hverfi 105 um sexleytið, grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku.