Bíl var ekið á hús í Hafnarfirði á ellefta tímanum í morgun og urðu skemmdir á húsinu, bílnum og umferðarmannvirkjum sömuleiðis. Enginn grunur er um að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum vímuefna, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir helstu verkefni dagsins hingað til.
Vímuefni komu þó við sögu í öðrum málum sem lögregla tókst á við í morgun. Einn var handtekinn eftir árekstur í Rofabæ í Reykjavík um áttaleytið í morgun, en sá hinn sami hafði ollið tjóninu og ekið á brott. Hann var handtekinn skömmu seinna, en maðurinn var undir áhrifum fíkniefna og hafði þegar verið sviptur ökuréttindum.
Þjófar voru á ferð í Árbænum. Tveir voru handteknir árla morgun vegna gruns um innbrot í fyrirtæki í hverfinu. Mennirnir voru með þýfi meðferðis, sem talið er vera úr innbrotinu, en lögregla segist enn vinna að málinu. Ekki hefur verið hægt að ræða við mennina sökum ástands þeirra.
Tveir til viðbótar hafa verið handteknir vegna annars máls í Árbænum, en þar hafði verið brotist inn í nokkrar bifreiðar sem stóðu í Hraunbæ.
Á ellefta tímanum barst lögreglu tilkynning um innbrot í fyrirtæki í Hafnarfirði. Lögregla rannsakar málið, en samkvæmt tilkynningu er ekki ljóst hverju hafi verið stolið.
Þá var einn maður handtekinn eftir að hafa ráðist á annan og veitt honum áverka á ellefta tímanum. Sá sem varð fyrir brotinu var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.