„Utanríkisstefna Bandaríkjanna veldur mér miklum áhyggjum. Það voru sár vonbrigði að þau segðu sig frá Parísarsáttmálanum, óráð að þau drægju sig út úr samkomulagi við Írani um kjarnorkuvopn og hryllilegt ef Trump stefnir nú Kúrdum í voða með því að draga bandaríska hermenn frá Sýrlandi.“
Þannig hefst Facebook-færsla Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, þar sem hann fjallar um ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands og landamærum Tyrklands.
„Sumir segja að þetta gefi tyrkneska hernum grænt ljós á sókn gegn Kúrdum, með tilheyrandi hörmungum,“ skrifar Logi enn fremur.
Hann óskar eftir því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra komi á fund utanríkismálanefndar sem fyrst og geri grein fyrir afstöðu sinni varðandi þá grafalvarlegu stöðu sem komin er upp á alþjóðavettvangi eftir nýjustu ákvörðun Bandaríkjaforseta.
„Í beiðninni lagði ég áherslu á að rætt verði hvort tilefni sé til viðbragða eða yfirlýsinga af hálfu Íslands,“ skrifar Logi.