Erfitt er að segja fyrir um það hvenær hinn árlegi inflúensufaraldur kemur hingað til lands eða hversu slæmur hann verður. Það hefur lítið upp á sig að horfa til flensufaraldra í öðrum löndum, svo sem á suðurhveli. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Morgunblaðið.
Greint var frá því í frétt The New York Times á föstudag að inflúensufaraldur í Ástralíu hefði verið sérstaklega slæmur í ár og hefði byrjað um tveimur mánuðum fyrr en venjulega. Var það talið geta gefið vísbendingu um það hvenær og hvernig faraldurinn yrði í Bandaríkjunum.
„Það er hægt að horfa til ríkja á suðurhveli jarðar og segja fyrir um hvaða tegundir inflúensu muni ganga á norðurhveli næsta vetur en ekki hvenær. Það segir ekkert til um það,“ segir Þórólfur, sem staðfestir að inflúensan byrji yfirleitt á sama tíma hér á landi eða upp úr áramótum. Þess vegna sé mikilvægt að byrja að bólusetja upp úr september eða október.