Skuldabréfaeigendur Upphafs samþykktu breytta skilmála

Höfuðstöðvar GAMMA við Garðastræti í Reykjavík.
Höfuðstöðvar GAMMA við Garðastræti í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Skulda­bréfa­eig­end­ur fast­eigna­fé­lags­ins Upp­hafs samþykktu skil­mála­breyt­ing­ar á skuld­um fé­lags­ins á fundi í dag, en breyt­ing­ar voru nauðsyn­leg­ar til að ljúka viðbótar­fjármögn­un með nýju skulda­bréfi að fjár­hæð eins millj­arðs króna. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá GAMMA.

„Fyr­ir fund­inn hafði fjár­fest­um verið kynnt áætl­un nýs stjórn­endat­eymi GAMMA um að tryggja fram­gang fram­kvæmda á veg­um fast­eigna­fé­lags­ins Upp­hafs, sem er að fullu í eigu fag­fjár­festa­sjóðsins Novus sem er í stýr­ingu hjá GAMMA. Upp­haf er nú á hápunkti fram­kvæmda með 277 íbúðir í bygg­ingu og eru áætluð lok allra fram­kvæmda í lok árs 2020. Áætl­un­in miðar að því að tryggja tekj­ur af sölu íbúða og há­marka virði eigna. Til þess að áætl­un­in gangi eft­ir er unnið með fjár­fest­um að því að klára skil­mála hins nýja skulda­bréfs,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Fjallað var um skil­mála­breyt­ing­una í Morg­un­blaðinu síðasta föstu­dag, en hún fel­ur meðal ann­ars í sér að gjald­daga höfuðstóls­ins verði frestað um eitt ár til 30. maí 2022 og að fast­ir vext­ir verði lækkaðir um­tals­vert, eða úr 15-16,5% niður í 6%.

Máni Atla­son, fram­kvæmda­stjóri GAMMA, seg­ir samþykki kröfu­hafa fé­lags­ins mik­il­vægt skref í átt að viðbótar­fjármögn­un sem trygg­ir fram­gang verk­efna og há­mörk­un eigna, eins og nýtt stjórn­endat­eymi GAMMA hafi lagt áherslu á.

„Við mun­um áfram kapp­kosta að reka smiðshöggið á end­ur­skipu­lagn­ingu fé­lags­ins sem fyrst og við mun­um áfram leggja áherslu á að kom­ast til botns í því hvað fór úr­skeiðis og upp­lýsa hag­hafa um það,“ er haft eft­ir Mána í til­kynn­ingu.

Óháðir sér­fræðing­ar ráðnir til að fara yfir málið

Eins og fjallað hef­ur verið um í fjöl­miðlum frá því í upp­hafi mánaðar hef­ur nýtt stjórn­endat­eymi GAMMA unnið að því að end­ur­meta stöðu Upp­hafs og fag­fjár­festa­sjóðsins GAMMA: Novus frá því í júlí. Í ljós kom að eigið fé Upp­hafs hafði verið of­metið og kostnaður van­met­inn.

Í til­kynn­ingu GAMMA seg­ir að stjórn fé­lags­ins líti þá stöðu sem kom upp við end­ur­matið „mjög al­var­leg­um aug­um“ og að stjórn­in hafi ráðið end­ur­skoðenda­fyr­ir­tækið Grant Thornt­on til þess að „fara yfir mál­efni Novus og Upp­hafs“.

„Á grund­velli niður­stöðu út­tekt­ar þeirra verður lagt mat á hvaða frek­ari aðgerða verður gripið til að upp­lýsa um málið. Jafn­framt munu stjórn­end­ur vinna með hag­höf­um að frek­ari upp­lýs­inga­öfl­un og verður fund­ur eig­enda sjóðsins boðaður inn­an skamms,“ seg­ir í til­kynn­ingu GAMMA.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert