Ég vissi að ég ætti engan séns

Erla Bolladóttir
Erla Bolladóttir Eggert Jóhannesson

„Ég vissi innst inni að ég ætti engan séns. En ég hafði enga yfirsýn yfir hversu hræðilegar afleiðingar þetta myndi hafa fyrir fjölda manns áratugum síðar. Á meðan ekki er sýknað í meinsærismálinu er því haldið fram að ég beri alfarið ábyrgð á því hvernig allt fór. Hvaða heilvita maður gefur út handtökuheimild á grundvelli sundurleits framburðs sem einkennist af getgátum og spurnarorðum?

Og hvernig er hægt að halda því fram að framburður þriggja einstaklinga um sömu atburðina, sem engan veginn ber saman, hafi verið nægileg ástæða til að handtaka saklausa menn fyrir framan fjölskyldurnar sínar klukkan sex um morguninn og halda þeim í gæsluvarðhaldi í yfir 100 daga?“

Þetta segir Erla Bolladóttir, einn sakborninga  í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem var sakfelld fyrir meinsæri ásamt tveimur öðrum, Sævari Marínó Ciesielski og Kristjáni Viðari Viðarssyni. Þau voru dæmd árið 1980 fyrir að varpa sök á Einar Bollason, bróður Erlu, Magnús Leópoldsson og Valdimar Olsen sem í kjölfar sakargiftanna sátu í gæsluvarðhaldi í 105 daga.

Dómarnir fyrir morðin á Guðmundi og Geirfinni voru teknir upp með ákvörðun endurupptökunefndar í febrúar 2017 og í fyrrahaust voru Sævar, Kristján, Tryggvi Rúnar Leifsson, Albert Klahn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson sýknaðir af þeirri ákæru.

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla …
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

Niðurstaða dómsins um meinsæri stóð hins vegar óhögguð og er stefna Erlu gegn ríkinu í vinnslu vegna þessa. Að auki lagði hún fram bótakröfu á hendur ríkinu í byrjun þessa árs vegna einangrunarvistar sem hún sætti árið 1976 en henni hafa engin svör borist við því.

Frá uppkvaðningu eftir að endurupptökunefnd tók upp mál þeirra sem …
Frá uppkvaðningu eftir að endurupptökunefnd tók upp mál þeirra sem höfðu verið dæmdir fyrir morðin á Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni. Haraldur Jónasson/Hari

Veltir fyrir sér tilgangi bréfs

Í kjölfar frétta af fyrirhugaðri stefnu Erlu sendi Valtýr Sigurðsson lögmaður forsætisráðuneytinu bréf í umboði þeirra Einars, Magnúsar og Valdimars, en tveir þeirra tengdist skemmtistaðnum Klúbbnum og allir þrír því stundum kallaðir Klúbbsmenn. Þar segir m.a. að  það hljóti að vera „verulegt umhugsunarefni hvað komi alsaklausum aðila, eins og Erla telur sig vera, til að spinna upp framburð sem þennan og bera þá Einar, Magnús og Valdimar slíkum sökum og þar með einnig sjálfa sig. Framburð sem var svo trúverðugur að reyndir rannsóknarlögreglumenn létu blekkjast lengi. Telja umbjóðendur mínir illskiljanlegt að þessi þáttur skuli ekki hafa haft meira vægi þegar endurupptökunefnd fjallaði um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins,“ segir í bréfi Valtýs, sem reyndar stýrði frumrannsókninni á hvarfi Geirfinns árið 1974, rannsókninni sem fljótlega beindist að Magnúsi Leópoldssyni og Sigurbirni Eiríkssyni, sem var eigandi Klúbbsins.

Lögfræðingurinn var grunaður

Erla veltir fyrir sér hvers vegna bréfið sé skrifað af lögmanni. „Það kemur ekki fram neitt í þessu bréfi sem útheimtir lögfræðing. Þetta er persónulegt erindi sem þeir hefðu vel getað skrifað sjálfir.“ Það sem ennfremur vekur athygli Erlu er að Valtýr hafði stöðu grunaðs í rannsókn Láru V. Júlíusdóttur setts sérstaks saksóknara í málinu árið 2003, rannsókn sem Magnús bað um á því hvers vegna Klúbbsmenn voru bendlaðir við hvarf Geirfinns í fyrrnefndri upphafsrannsókn. „Hafði Valtýr enn stöðu grunaðs manns þegar þeirri rannsókn lauk?“ spyr Erla.

Vissi ekki af bréfinu fyrr en búið var að afhenda það

Erla vissi ekki af tilvist umrædds bréfs fyrr en rétt áður en greint var frá efni þess í hádegisfréttatíma RÚV 19. september síðastliðinn. Ráðuneytið hafði sent það til hennar í ábyrgðarpósti, ásamt tilkynningu um að RÚV hefði óskað eftir aðgangi að því. Henni var gefinn frestur til 18. september til að samþykkja eða hafna því að ráðuneytið afhenti bréfið þar sem það varðaði einkahagsmuni hennar. Hún kom heim frá útlöndum að kvöldi þess 18. og sótti bréfið á pósthúsið morguninn eftir. Þá var þegar búið að afhenda RÚV bréfið. Hún segist ekki hafa fengið neina aðra tilkynningu um bréfið, hvorki í tölvupósti né á annan hátt og það sama gildi um lögmann hennar, Ragnar Aðalsteinsson. Hún segist furða sig á flýti forsætisráðuneytisins við að koma bréfinu í fjölmiðla, en segist vona að ráðuneytið hafi breytt rétt með tilliti til persónuverndar. 

Erla segir að sér þyki nokkuð fast að orði kveðið í bréfi Valtýs þar sem hann talar um trúverðugleika hennar sem lengi hafi blekkt rannsóknarlögreglumenn. Þegar Einar, Magnús og Valdimar voru handteknir snemma morguns 26. janúar árið 1976. lágu fyrir fjórar skýrslur sem teknar höfðu verið af Sævari, Erlu og Kristjáni Viðari dagana á undan. Það sem fram kom í þessum skýrslum var lagt til grundvallar handtökuheimildar þessara manna. 

Frá réttarhöldum í hæstarétti í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980. …
Frá réttarhöldum í hæstarétti í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980. Sævar Ciesielski situr fyrir miðju.

 Erla um framburð Sævars: „Að Einar bróðir, sá dáði maður,  hefði einhverntímann hóað í Sævar úti á götu og beðið hann um að selja fyrir sig spíra er ekki á nokkurn hátt í tengslum við raunveruleikann. Aldrei nokkurn tímann hefði það gerst. Öll fjölskyldan mín hafði áhyggjur af sambandi okkar Sævars, ekki síst Einar. Þetta var aldrei kannað, aldrei skoðað hvort þetta hefði getað átt sér stað. Einar hefði aldrei tekið þátt í neinu þessu líku, það var reynt að gera þetta sennilegt með því að rifja upp að hann hafði einhverntímann átt kassa með vodkaflöskum og pabbi fór með það í vinnuna sína og seldi vinnufélögum. Í fyrri framburðinum sagði Sævar að ég hefði ekki verið með í ferð til Keflavíkur. Daginn eftir gaf ég skýrslu þar sem ég sagðist hafa verið þar, þá var hann kallaður aftur til skýrslutöku og þá sagði hann að ég hefði verið á staðnum.“

Kristján Viðar Viðarsson fyrir miðju við réttarhöldin 1980.
Kristján Viðar Viðarsson fyrir miðju við réttarhöldin 1980.

Ekkert spurt út í framburðinn

Erla um framburð sinn: „Enginn spurði hvaða bíll þetta hefði verið eða hvers vegna ég hefði sest upp í bíl hjá ókunnugum mönnum og látið aka með okkur á einhvern óþekktan stað. Engin skýring fylgdi heldur fullyrðingunni um að ég hafi óttast um að vera tekin af lífi og ekkert minnst á hvern eða hverja ég óttaðist í því sambandi.“

Frá réttarhöldum í Hæstarétti í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980. …
Frá réttarhöldum í Hæstarétti í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980. Erla situr fyrir miðju.

Orðasamböndin ekki man ég, ekki veit ég, ekki vissi ég, ég held, ég gat ekki gert mér grein fyrir og ekki er ég viss um eru gegnumgangandi í þessum framburði Erlu, en alls koma þau fyrir 13 sinnum. Hún segir að allt kapp hafi verið lagt á því að koma nafni Klúbbsins að í yfirheyrslunum yfir henni. Þau hafi aldrei sótt þann skemmtistað, Sævari hafi þótt lítið til slíkra staða koma og þess sem þar fór fram. 

Reyndi að segja réttu hlutina

Þú  skrifaðir vissulega undir þessar yfirheyrsluskýrslur - sagðir þú ekki það sem þar stendur?  „Ég reyndi svo lengi að segja að þetta væri bara rugl. Að ég vissi ekkert um þetta. Ég sagði þeim að Sævar hefði stundum viljað spila sig stóran og þykjast vita eitthvað sem hann hafði enga hugmynd um. Ég var spurð um allskonar smáatriði úr lífi mínu, lögreglan leiddi frásögnina og ég var farin að reyna að hitta á að segja það sem ég hélt að þeir vildu fá fram. Þarna hafði ég verið í mörgum viðtölum hjá lögreglunni sem hafði reynt að sannfæra mig um að ég hefði upplifað eitthvað í Keflavík sem ég gæti ekki munað. Þeir myndu hjálpa mér til þess, því þeir væru sérþjálfaðir í að hjálpa fólki við að muna. Til dæmis var lýst fyrir mér húsi í nágrenninu við dráttarbrautina í Keflavík og þá sagðist ég sagðist hafa falið mig í því. En ég hafði aldrei komið í þetta hús.“

Erla Bolladóttir í réttarsal árið 1980.
Erla Bolladóttir í réttarsal árið 1980.

En hvað með þá sem eiga að hafa tekið þig upp í þegar þú segist hafa húkkað far frá Keflavík? Var aldrei reynt að hafa uppi á þeim? „Það var lýst eftir bílstjórunum, menn gáfu sig fram og báru kennsl á mig en þá höfðu þegar birst myndir af mér í blöðunum vegna málsins.“ 

„Langsótt og ótrúverðugt“

Margoft hefur verið leitt líkum að því að lögregla hafi haft þá kenningu að Geirfinnur hefði verið hlekkur í keðju sem smyglaði spíra og grunur var um að í Klúbbnum væri selt áfengi sem ekki hefði verið keypt í ríkinu. Geirfinnur hafði verið í Klúbbnum tveim dögum áður en hann hvarf og þannig var hann tengdur við staðinn. Fjórði maðurinn, Sigurbjörn Eiríksson eigandi Klúbbsins var handtekinn tveimur vikum á eftir hinum þremur.

Dráttarbrautin í Keflavík sem kom við sögu í Guðmundar- og …
Dráttarbrautin í Keflavík sem kom við sögu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.


Afhverju nefndirðu þessa tilteknu menn; Einar, Valdimar og Magnús?
  Lögreglan talaði um að voðaverk hefði átt sér stað í dráttarbrautinni í Keflavík og að það tengdist spírainnflutningi. Mér voru sýndar myndir, Magnús Leópoldsson var á einni og ég vissi hver hann var, því ég hafði einu sinni séð hann þegar ég var 16 ára í tengslum við Valdimar Olsen sem var bróðir vinkonu minnar, en hann mun hafa unnið bókhald fyrir Magnús á þessum tíma. Áhugi lögreglunnar beindist þá strax að Valdimari og gleðskap, sem var stundum á heimili hans. Lögreglan vildi að ég segði sér nöfn allra gesta Valdimars sem og allt sem þeim hefði farið á milli. Þá kom fram að sumir gestanna vissu hver Einar bróðir var og þótti mikið til hans koma. Ég man enn, hversu stolt ég var af því að vera systir hans. En þarna eygðu rannsóknarmenn leið til að tengja okkur við Klúbbmenn, eins langsótt og ótrúverðugt og það var.“

„Ég saka þá ekki um neitt“

Erla segir að alla tíð hafi blasað við sér að tilgangur lögreglunnar hafi verið að brjóta hana og aðra í málinu niður til að bera vitni gegn Klúbbmönnum, einkum Sigurbirni Eríkssyni. „Í öllum mínum framburði segi ég hins vegar aldrei að nokkur þessara manna hafi aðhafst neitt refsivert. Ég saka þá ekki um neitt, hvað þá að hafa valdið dauða Geirfinns. Ég skrifaði undir skýrslur sem báru að þeir hefðu verið í bíl, í dráttarbraut. Í þessum yfirheyrslum var mér ljóst að ég ætti engan séns í að berjast gegn þvingunum rannsóknarmanna, en um leið hafði ég enga yfirsýn yfir hversu hræðilegar afleiðingar þetta myndi hafa fyrir fjölda manns. Og á meðan ekki hefur verið sýknað í meinsærismálinu er því haldið fram að ég beri alfarið ábyrgð á því hvernig þetta allt fór.“

Tvítug án lögfræðings

Erla spyr hvernig nokkrum manni detti í hug að heill her rannsóknarlögreglumanna hafi verið lagður undir, málsmetandi saklausum mönnum haldið í einangrun í 105 daga og allt annað sem þetta hafði í för með sér hafi alfarið grundvallast á skýrslu sem tekin var af henni tvítugri með nýfætt barn. „Tvítug án lögfræðings. Þegar þvinguð til að bera vitni gegn nýorðnum barnsföður mínum og öðrum saklausum mönnum um örlög Guðmundar Einarssonar. Ég var einangruð við dagleg samskipti við rannsóknaraðila, ég var í stöðugum ótta og í leit að leið undan því taki sem þeir höfðu á mér; ringluð yfir því hvað var raunverulegt og hvað ekki. Hvernig getur nokkur maður nefnt trúverðugleika í þessu sambandi?“ spyr Erla.

Úr Morgunblaðinu 18. mars 1977.
Úr Morgunblaðinu 18. mars 1977.

„Ég held að það sé löngu tímabært að kanna trúverðugleika þeirra sem með málið fóru á öllum stigum þess, allt frá því að Geirfinnur hvarf 19. nóvember 1974.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert