Tímabært að skylda flokkunina

Sorp urðað í jörðu í Álfsnesi. Um 100.000 tonn af …
Sorp urðað í jörðu í Álfsnesi. Um 100.000 tonn af sorpi bárust á urðunarstað Sorpu á Álfsnesi á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

656 kíló af rusli féllu til frá til frá hverj­um Íslend­ingi árið 2017 og gerir það þjóðina að einum mestu ruslurum Evrópu samkvæmt tölfræði Eurostat. Þetta sama ár var heildarmagn úrgangs sem féll til á Íslandi rúm 1.400 þúsund tonn samkvæmt tölum frá Umhverfisstofnun og af þeim 225.000 tonnum sem féllu til frá heimilum landsins rötuðu ekki nema 33% í endurvinnslu eða endurnýtingu.

Í dag er sveitarfélögum landsins í sjálfsvald sett að ákveða hvaða háttur er hafður á varðandi urðun og endurvinnslu, þó áætlun sé uppi um að skylda sveitarfélög og rekstraraðila til að koma upp samræmdri flokkun. Sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra um tímamótaaðgerð að ræða er hann setti plastlausan september í upphafi síðasta mánaðar.

„Að mínu mati er mikilvægt að við setjum bara skyldu á þetta.  Það er algjörlega kominn tími á það,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

Mbl.is lék forvitni á að vita hvernig endurvinnslumálum væri háttað á landinu öllu og sendi fyrirspurn um urðun og endurvinnslu á öll 72 sveitarfélög landsins. Mikill meirihluti brást vel við fyrirspurninni og svöruðu 60 sveitarfélaganna. Í 59 þeirra er sorp þegar flokkað með einhverjum hætti, í mismiklum mæli þó og í Akrahreppi, eina sveitarfélaginu sem ekki býður upp á flokkun, er stefnan varðandi sorphirðu í endurskoðun. Taka má fram að engin þéttbýliskjarni er í sveitarfélaginu og kjósa margir íbúar þess engu að síður að flokka sitt sorp, jarðgera heima við og nýta þannig lífrænan úrgang og keyra svo með flokkaða sorpið á næsta móttökustað.

Guðmundur Ingi segir frumvarp um breytingar á lögum um úrgangsmál …
Guðmundur Ingi segir frumvarp um breytingar á lögum um úrgangsmál vera á þingmálaskrá fyrir vorþingið. „Þar er verið leggja upp með að það verði gert að skyldu að flokka heimilisúrgang,“ segir hann og kveður frumvarpsdrögin einnig skylda lögaðila, þ.e. fyrirtæki til að flokka. mbl.is/​Hari

Íbúar kalla eftir endurbótum

„Mín tilfinning er sú að íbúar sveitarfélagsins séu almennt mjög meðvitaðir um þessi mál og kalli eftir endurbótum þar sem þær eiga við,“ segir í svörum Hrefnu Jóhannesdóttur oddvita Akrahrepps.

Terra sem áður hét Gámaþjónustan sér um sorphirðu fyrir tæplega 30 sveitarfélög víða um land og segir Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri fyrirtækisins íbúa almennt duglega að nýta sér flokkunarílát ef sveitarfélagið þeirra býður upp á slíka þjónustu. 

„Sorphirðu- og flokkunarkerfi sveitarfélaganna eru ólík,“ segir Líf. „Sveitarfélögin velja hvaða kerfi þau vilja hafa varðandi úrgang og endurvinnsluefni og við sjáum svo um að þjónusta þeirra kerfi.“ Hún bætir við að þeim sveitarfélögum fari sífellt fjölgandi  sem til að mynda bjóði upp á söfnun á lífrænum úrgangi og segir Terra finna fyrir mikilli ánægju meðal þeirra íbúa sem eiga kost á slíku.

Það mun taka um fjögur ár að fylla þessa gryfju …
Það mun taka um fjögur ár að fylla þessa gryfju af sorpi að sögn starfsmanna Sorpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjá þeim 60 sveitarfélögum sem svöruðu könnuninni ratar pappi og pappír í endurvinnslu hjá 59 þeirra. Lausleg skoðun á vefsíðum stærstu sveitarfélaganna sem svöruðu ekki, m.a. hjá Fljótsdalshéraði, Fjallabyggð og Árborg, bendir til að svo sé einnig þar.

Íbúum er þó gert misauðvelt með að flokka og getur stærð og þéttleiki byggðar þar haft sitt að segja. Akureyringar standa sig til að mynda mun betur en landsmeðaltalið og féllu í fyrra til um 7.600 tonn af sorpi frá heimilum á Akureyri, sem gera um 400 kíló á hvern íbúa. Minni sveitarfélög eins og til að mynda Tálknafjörður, Vesturbyggð, Vopnafjörður, Borgarfjarðarhreppur og Djúpavogur eru svo ekki endilega með tveggja eða fleiri tunnu kerfi, heldur láta íbúa um að koma endurvinnanlegu sorpi í sérstakar flokkunarstöðvar, sem sumar hverjar bera vitni um töluverðan metnað.

Á Vopnafirði er þannig til að mynda hægt að skila inn sorpi til endurvinnslu allan sólarhringinn í gegnum sérstakar lúgur á safnstöðinni. Í nágrannasveitarfélaginu á Borgarfirði geta menn flokkað í eina 18 flokka, en verða þó að gera sér ferð í endurvinnslustöðina í áhaldahúsinu með sorpið. Jón Þórðarson í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps segir Borgfirðinga líka vera duglega að flokka. „Stóri vandinn er að hér búa 100 manns en hingað koma 60.000 ferðamenn,“ segir hann. „Þó það séu settir upp 7-8 tunnur að flokka í  á tjaldstæðinu þá virðist það vera mjög erfitt.“

Í Húnaþingi vestra, sem er 1.200 manna sveitarfélag eru svo hafðar tvær tunnur við hvert heimili í bæði þéttbýli og dreifbýli. Er önnur tunnan fyrir almennt heimilissorp og hin tunnan fyrir endurvinnsluefni — pappa og pappír, plast, málma og rafhlöður.

Í Norðurþingi er í dag sorp flokkað á Húsavík og í Reykjahverfi og gert er ráð fyrir  að móttaka endurvinnslu í Kelduhverfi, Öxarfirði, Kópaskeri, Melrakkasléttu og Raufarhöfn verði komin í gagnið fyrir árslok.

Líf Magneudóttir, varaformaður stjórnar Sorpu, segir Reykvíkinga vera duglega að …
Líf Magneudóttir, varaformaður stjórnar Sorpu, segir Reykvíkinga vera duglega að flokka. Fyrirtækin mættu þó standa sig betur í þeim efnum. mbl.is

Heimilin standa sig betur en fyrirtækin

Guðmundur Ingi segir frumvarp um breytingar á lögum um úrgangsmál vera á þingmálaskrá fyrir vorþingið. „Þar er verið leggja upp með að það verði gert að skyldu að flokka heimilisúrgang,“ segir hann og kveður frumvarpsdrögin einnig skylda lögaðila, þ.e. fyrirtæki til að flokka. „Mér finnst tímabært að gera þetta. Núverandi löggjöf er búin að vera lengi,“ segir hann. „Við erum ekki að flokka alls staðar á landinu og erum ekki með flokkun frá öllum,“ bætir hann við og kveður heimilin standa sig betur í þessum efnum en fyrirtækin.

Jón G. Valgeirsson formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands tekur í sama streng og segir heimilin ekki vera með stærsti hluta úrgangsins. „Það eru fyrirtækin og ferðamennirnir,“ segir hann.

Á höfuðborgarsvæðinu þar sem meirihluti landsmanna er búsettur og þar sem sveitarfélögin deila öll rekstri Sorpu er endurvinnslumálum misjafnlega háttað.  Þar eru til að mynda öll sveitarfélögin nema Reykjavík með bláa tunnu fyrir pappír við hvert heimili, en í  Reykjavík er bláa tunnan valkvæð, rétt eins og græna tunnan fyrir plast sem borgin býður upp á.

„Ég vil meina að í Reykjavík sé mjög mikill sveigjanleiki og val fyrir íbúana.“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG sem jafnframt er formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur og varaformaður stjórnar Sorpu. Hún nefnir að hverfi borgarinnar séu mjög misjöfn hvað varðar aðstöðu fólks til sorpgeymslu. „Þannig að við erum strangt til tekið með meira val, en ef við t.d. berum okkur saman við Kópavog og Hafnafjörð.

Svo nefndum djúpgámum hefur nú verið komið fyrir á nokkrum …
Svo nefndum djúpgámum hefur nú verið komið fyrir á nokkrum stöðum í borginni fyrir flokkað sorp. mbl.is/Baldur Arnarson

Nefnir Líf sem dæmi að Kópavogur rukki þannig sérstakt sorphirðugjald á hverja íbúð á meðan að þeir Reykvíkingar sem standa sig vel við flokkunina og nýta hverfisstöðvarnar geti haldið kostnaðinum niðri. „Við erum með grenndarstöðvar í göngufæri frá heimilum fólks, þannig að það getur líka losað sig við plastið og pappann þar,“ segir hún og nefnir líka djúpgámalausnirnar sem borgaryfirvöld eru nú að skoða í þéttri byggð og sem þegar eru komnar upp í Vogabyggð, Efstaleiti og við Höfðatorg og  Móaveg í Grafarvoginum „Það er meiri sveigjanleiki í samsetningu sorpíláta við heimili fólks í Reykjavík heldur en annars staðar.“

Líf samsinnir þeim Guðmundi Inga og Jóni og segir fyrirtækin geta staðið sig betur varðandi flokkun. Annars séu Reykvíkingar þó duglegir að flokka og endurvinnslustöðvarnar sem sveitarfélagin sex á höfuðborgarsvæðinu standa að séu líka mikið notaðar. „Fyrirtækin mættu þó kannski flokka meira,“ segir hún og vísar til heimilisúrgangsins sem frá þeim kemur, en af þeim 100.000 tonnum af sorpi bárust á urðunarstað Sorpu á Álfsnesi á síðasta ári voru 67% frá fyrirtækjum og stofnunum.

Flokkunarvélin Kári í starfstöð Sorpu í Gufunesi sér um að …
Flokkunarvélin Kári í starfstöð Sorpu í Gufunesi sér um að flokka frá poka með flokkuðu plasti frá heimilisúrgangi íbúa í Mosfellsbæ, Garðarbæ, Seltjarnarnesi og Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokkar plastið vélrænt frá

Mikill meirihluti þeirra sveitarfélaga sem svöruðu könnun mbl.is bjóða upp á endurvinnslu plasts þó ekki hafi öll sveitarfélög verið  lengi að flokka. Til  að mynda var ekki byrjað að flokka plast og pappír frá öðru sorpi í Vík í Mýrdal fyrr en í byrjun þessa árs og á Suðurnesjum hófst flokkun við heimili eftir mitt ár 2018. Þar var endurvinnsluefni um 20% af heildarmagni úrgangs sem barst frá heimilum á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Í  dreifbýlli sveitarfélögum, t.d. Húnavatnshreppi og Borgarbyggð, er plasti utan af heyrúllum safnað af bæjum allt upp undir fjórum sinnum á ári. Í Kaldrananeshreppi þar sem íbúar eru 109 talsins er allt heyrúlluplast sótt heim á bæi til bænda og ekið með það suður til endurvinnslu og þegar magn heyrúlluplasts á Blönduósi er skoðað má sjá að þar hafa 2.800 tonn af heyrúlluplasti ratað í endurvinnslu sl. áratug.  

Í Reykjavík geta íbúar, líkt og áður sagði óskað eftir grænni tunnu fyrir plast. Kópavogsbær er með endurvinnslutunnu frá Íslenska gámafélaginu og geta íbúar skilað sínu plasti þangað.

Í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ geta íbúar hins vegar flokkað plastið í plastpoka og sett þá vandlega lokaða í sorptunnuna. Plastflokkunarvélin Kári sér síðan um að flokka plastið sem gengið er frá með þessum hætti vélrænt frá öðrum úrgangi og koma til endurvinnslu. Kári nær líka að flokka frá hluta af því plasti sem sett er laust í tunnurnar, en ekki plast sem er í lokuðum sorppokum í bland við t.d. lífrænan úrgang sem oft er bæði blautur og þungur.

Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu hefur Kári skilað af  sér um 4 kg af plasti á íbúa í þeim sveitarfélögum sem taka þátt og er það um fjórðungur af því plasti sem er í tunnunum. Er það hlutfallslega ámóta magn og fæst frá sérsöfnun Reykjavíkurborgar.  

Borgarfulltrúinn Líf vill heldur ekki meina að flokkun Reykvíkinga líði fyrir að ekki velji allir að vera með sér plast- og pappírstunnu við sitt heimili, enda séu borgarbúar afar duglega við að flokka „og það hefur aukist til muna,“ bætir hún við. „Þannig að það sem við erum að taka á móti nú er mun meira en í fyrra, því þetta er alltaf aukast.“

Í janúar 2008 hófu íbúar í Stykkishólmi, fyrstir Íslendinga, að …
Í janúar 2008 hófu íbúar í Stykkishólmi, fyrstir Íslendinga, að flokka heimilisúrgang í þrjár tunnur. Endurvinnsluhlutfall í sveitarfélaginu rokkar í dag á milli 60-65%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mismunandi kerfi ruglandi og letjandi fyrir landsmenn

Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs Íslenska gámafélagsins, og Líf hjá Terra segja bæði íbúa almennt duglega við að nýta sér flokkunarílát bjóði sveitarfélag þeirra upp á slíka þjónustu.  Segir Líf Terra sjá mikil tækifæri í frekari samræmingu milli sveitarfélaga hvað flokkun varðar. „Það er ótvírætt ruglandi og því letjandi fyrir landsmenn til flokkunar, hversu mismunandi þessi kerfi eru t.d. þegar þeir ferðast í frí á milli landshluta, svo ekki sé minnst á ferðamenn sem koma til landsins. Flokkun á að vera einföld, sjálfsögð og hvetjandi,“ segir hún.

„Það hefur orðið gríðarleg vitundarvakning í flokkun til endurvinnslu á undanförnum árum,“ bætir Birgir við. „Í janúar 2008 hófu íbúar í Stykkishólmi, fyrstir Íslendinga, að flokka heimilisúrgang í þrjár tunnur. Í dag eru sveitarfélög um allt land komin með sama eða sambærilegt flokkunarkerfi og heildarfjöldi sveitarfélaga sem flokkar samkvæmt því kerfi er vel yfir 20 talsins. Það er hinsvegar athyglisvert að ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið upp þetta flokkunarkerfi.“

Guðmundur Ingi segir meðal þess sem væntanlegt lagafrumvarp um úrgangsmál tekur á séu samræmdar merkingar á flokkunina. „Við þekkjum þetta þegar við förum á milli sveitarfélaga og landshluta að það er ekki flokkað með sama hætti. Það er til mikil óhagræðis fyrir okkur sem neytendur og fyrir ferðamennina okkar og þetta er eitthvað sem við ætlum að reyna taka á í löggjöfinni – að innleiða einhvers konar samræmdar merkingar fyrir úrgangsflokka,“ segir hann. Nánari útfærsla sé enn í vinnslu, en þetta kunni til að mynda að fela í sér að hver flokkur að fá sitt merki eða sinn einkennislit sem beri þá að nota við alla meðhöndlun úrgangs alls staðar á landinu.

Jarðgerðarstöð Sorpu sem nú rís í Álfsnesi. Gert er ráð …
Jarðgerðarstöð Sorpu sem nú rís í Álfsnesi. Gert er ráð fyrir að taka hana í notkun á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gjörbreytist með gas- og jarðgerðarstöðinni

Viljinn til aukinnar samræmingar virðist líka víðar vera til staðar því borgarfulltrúinn Líf segir sveitarfélög á Suðvesturlandi þegar farin að ræða saman um að samræma betur þá efnisflokka sem vilji sé fyrir að flokka. „Við erum að hugsa um það núna að stíga meira í takt þessi sveitarfélög á Suðvesturlandi og höfuðborgarsvæðinu og reyna að samræma þetta miklu betur,“ segir hún og bætir við að vissulega séu sveitarfélögin þó ólík og verði að haga sínum málum í takt við umhverfi sitt. Ekki sé t.d. saman að jafna þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og dreifðari byggðum .

Úrgangsflokkarnir sem sveitarfélögin eru sammála um sérsöfnun á og sem geri þeim um leið kleift að uppfylla Evróputilskipun í úrgangsmálum eru auk pappans og plastsins, bæði málmar og gler. „Svo getum við í framhaldinu farið að gera tilraun með sérsöfnun á textíl,“ segir Líf.  „Þetta er allt að ganga í rétta átt, svo ég tali nú ekki um þegar gas og jarðgerðarstöðin kemur, þá verður þetta gjörbreyting á umhverfi okkar.“

Spurður hvort vænta megi viðurlaga við brotum gegn flokkun þegar nýja löggjöfin kemst í gagnið segir Guðmundur Ingi eiga eftir að útfæra hvernig tekið verði á því þegar ekki er flokkað. „Sveitarfélögin eru með úrgangsmálin á sínum herðum og að stærstum hluta kemur það í þeirra hlut að sjá til þess að þetta sé hægt og að neytendum og fyrirtækjum sé gert kleift að flokka,“ segir hann og kveður slíkt því þurfa að skoðast í nánu samstarfi við sveitarfélögin.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert