Ýmis ríki innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) gagnrýndu bandalagið á þingi NATO ríkjanna í gær fyrir að sýna Tyrkjum linkind vegna innrásar Tyrkja í Sýrland. Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og varaformaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, sem sat þingið. Hún telur að ríkisstjórn Íslands ætti að vera skýrari í afstöðu sinni gagnvart innrásinni.
„Það voru margir sem gagnrýndu nálgun Stoltenbergs [framkvæmdastjóra NATO] og NATO-ríkjanna. Margir vildu meina að hún væri allt of mikil málamiðlun. Það lýsa allir yfir áhyggjum en mér finnst þessi nálgun vera svolítið eins og í Úkraínu. Við lýsum öll yfir áhyggjum en þegar upp er staðið þá eru Rússar með Krímskaga og Tyrkir eru að gera nákvæmlega það sama núna með Sýrland,“ segir Þorgerður.
Sex dagar eru síðan Tyrkir réðust inn í norðausturhluta Sýrlands, á svæði þar sem fjöldi Kúrda býr. Donald Trump Bandaríkjaforseti tók ákvörðun um að Bandaríkin myndu draga hersveitir sínar frá Sýrlandi. Þannig er Tyrkjum gert auðveldara fyrir í sínum hernaðaraðgerðum.
„Ég hef sjaldan heyrt Þjóðverja tala jafn skýrt, það sama má segja um Belga, Frakka og Hollendinga sem gagnrýndu Tyrki harðlega. Tyrkir eru náttúrulega alltaf með sitt stóra lið. Þeir eru góðir í lobbíismanum og passa upp á sitt land og mótmæla umsvifalaust allri gagnrýni, sér í lagi ef það snertir eitthvað stjórnarhætti Erdogans,“ segir Þorgerður.
Kúrdísk stjórnmálakona var tekin af lífi um helgina og var það sérstaklega rætt á NATO þinginu. „Sýrland lá mjög á fólki í gær og meðal annars var vakin athygli á morðinu á kúrdísku þingkonunni sem var mikið óhæfuverk. Tyrkir fengu alveg að heyra það og það var þungt yfir.“
Spurð hvað NATO geti gert í málinu segir Þorgerður: „NATO getur beitt mjög miklum þrýstingi. Vegna þess að ákvörðun Bandaríkjaforseta varð til þess að Tyrkjum varð þetta mögulegt þá hlýtur slík ákvörðun líka að geta leitt til þess að hægt sé að stöðva þetta. Ákvörðun Trumps er ótrúlega vanhugsuð og maður fann að fulltrúum Bandaríkjanna leið ekki vel með þetta.“
Yfirlýst markmið Erdogans með hernaðaraðgerðunum er að skapa öruggt svæði á landamærunum þar sem flóttafólk gæti dvalið. Þorgerður segir að ríkjandi sjónarmið á þinginu hafi verið að markmið Erdogans sé í raun yfirskin.
„Það skilja allir að þjóðir þurfa að verja sig og tryggja sitt eigið. Það er náttúrulega frumskilyrði allra þjóða. Það átta sig líka allir á því að þetta var bara yfirskin. Maður hefði haldið að bæði Tyrkir og Bandaríkjamenn hefðu getað unnið betur úr þessu í þágu friðar og mannréttinda en það er eitthvað annað sem hangir á spýtunni þarna.“
Þorgerður kallar eftir skýrari afstöðu af hálfu íslenskra stjórnvalda. „Ég er þó þakklát fyrir það sem hefur komið frá ríkisstjórninni. Það er alveg ljóst að ef maður fylgist með umræðunni og orðræðu tiltekinna þingmanna Sjálfstæðisflokksins að það er langt á milli. Það er ákveðinn skoðanamunur, áherslumunur, á nálgun Vinstri grænna annars vegar og Sjálfstæðismanna hins vegar. Sjálfstæðismenn eiga greinilega í vandræðum með það að gagnrýna verk Bandaríkjaforseta. Það er eins og hann eigi og snerti ákveðinn streng í þeirra röðum.“