„Við erum stödd í hálfleik, höfum ekki siglt sigrinum í höfn en að mörgu leyti finnst mér við hafa átt góðan fyrri hálfleik og ég er þess fullviss um að að leikslokum munum við fagna sigri,“ sagði Katrín Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formaður VG, í opnunarræðu sinni á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hófst fyrir skömmu.
Hún líkti fyrri hluta yfirstandandi kjörtímabils við góðan fyrri hálfleik í kappleik og sagðist ánægð með þann árangur og þær aðgerðir sem hafa náðst á síðastliðnum tveimur árum í þágu jöfnuðar og réttlætis, í þágu kvenfrelsis og í þágu lýðræðis og almannahagsmuna.
Hún bætti því þó við að á síðari hluta kjörtímabilsins myndu stór skref verða stigin í lykilmálaflokkum. Þau skref yrðu meðal annars aukin fjárfestingu í nýsköpun, raunverulegar aðgerðir til að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni, draga úr kostnaði sjúklinga við að sækja sér heilbrigðisþjónustu og ákvæði um þjóðareign á auðlindum og umhverfisvernd í stjórnarskrá ásamt öðrum stjórnarskrárbreytingum.
Hún hóf ræðu sína á því að vísa í „nýsköpunarræðu“ Einars Olgeirssonar, fyrrverandi þingmanns, frá 1944 sem var haldin í kjölfar þess að Sósíalistar mynduðu óvenjulega ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sú ríkisstjórn var skammlíf, lifði aðeins í rúm tvö ár, en Katrín sagði að þrátt fyrir það hefðu Sósíalistar aldrei séð eftir því að hafa gripið tækifæri til að mynda ríkisstjórn og hrint stefnu sinni í framkvæmd. Hún líkti því við það sem Vinstri hreyfingin hefði gert fyrir tveimur árum og væri enn að gera.
„Við gripum tækifærið og við erum að nýta það af fullum krafti,“ sagði hún.
Hún rifjaði upp það sem hún sagði fyrir tveimur árum, rétt fyrir kosningar, og þau stóru viðfangsefni sem henni fannst vera framundan á þeim tíma og fór yfir það hvernig hefði gengið að vinna að þeim viðfangsefnum á síðustu tveimur árum.
Þau viðfangsefni voru loftslagsváin, aukinn jöfnuður í samfélaginu, að takast á við kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi sem ein stærsta, framtíð lýðræðis á umbrotatímum og hvernig tryggja ætti almannahagsmuni.
„Allt frá stofnun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 1999 hafa loftslagsmálin verið í forgrunni í allri okkar stefnumótun. Það var undir forystu Vinstri-grænna sem fyrstu lögin voru sett um loftslagsmál árið 2012 við lítinn áhuga annarra flokka. Árið 2015 markaði straumhvörf í almennri umræðu um loftslagsmál en við undirritun Parísarsáttmálans færðust loftslagsmálin nær meginstraumi stjórnmálanna,“ sagði hún og bætti við:
„Em það gerðist lítið í íslenskum stjórnmálum fyrr en núverandi ríkisstjórn tók við og setti þessi mál í forgrunn. Enginn getur mótmælt því að á þessu kjörtímabili hefur í fyrsta sinn verið veitt verulegum fjármunum til málefnisins og loksins hefur verið mótuð skýr stefna um kolefnishlutleysi. Þessari stefnu er fylgt eftir með raunverulegum aðgerðum sem munu skila raunverulegum árangri. Sú breyting hefur orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar, og með áherslum Vinstri-grænna í ríkisstjórninni, að við erum ekki lengur eingöngu að tala um það sem ætti að gera og þyrfti að gera – við erum byrjuð að gera.“
Með því að ríkisstjórn hafi sett fram skýr markmið um kolefnislaust Ísland ekki seinna en 2040 og lagt fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaráætlunina til að berjast gegn loftlagsvánni hefði tekist að ná fyrsta markmiði Vinstri hreyfingarinnar.
„Fyrir tveimur árum spurði ég líka hvernig við gætum leyst úr þeim áskorunum sem við blöstu til að tryggja félagslegt réttlæti og auka jöfnuð. Eitt af því sem við ákváðum þegar við fórum í þessa ríkisstjórn var að byggja ákvarðanir okkar og stefnu á gögnum og staðreyndum,“ sagði Katrín og spurði svo hvað ríkisstjórnin hefði gert í þessum málum.
Hún svaraði svo spurningunni sjálf og nefndi þær félagslegu aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar sér að fara í. Þær eru innleiðing þriggja þrepa skattkerfis, hækkun barnabóta og skerðingarmarka þeirra auk lengra fæðingarorlofs.
Með því væri bæði verið að bæta kjörin og líka auka lífsgæði fólks sem mun fá meiri tíma til samvista með börnum sínum.
Þá nefndi hún aukinn stuðning við félagslegt húsnæði samhliða aðgerðum til að styðja við fyrstu kaupendur, nýtt námslána- og stuðningskerfi og að lokum þau markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr skerðingum í örorkukerfinu.
„Hins vegar er líka ljóst að nýtt skattkerfi, hærri barnabætur, minni kostnaður við að sækja sér heilbrigðisþjónustu og betra félagslegt húsnæðiskerfi munu líka gagnast örorkulífeyrisþegum og tekjulægri eldri borgurum þannig að margt mun hjálpast þar að og þetta kæru félagar eru ekki aðeins loforð heldur aðgerðir sem eru þegar hafnar,“ tók hún fram.
Varðandi kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi sagði Katrín að Vinstri græn hefðu beitt sér að alefli fyrir kvenfrelsisstefnu á þessu kjörtímabili. Jafnréttismál hefðu verið færð inn í forsætisráðuneytið um áramótin og á þeim vettvangi hefði verið unnið að heildstæðum tillögum um úrbætur fyrir brotaþola kynferðisofbeldis.
Þá hefði sömuleiðis verið lögð mikil vinna í forvarnir á þessu sviði. Öflugt samstarf hefði náðst með aðilum vinnumarkaðarins og æ fleiri fyrirtæki og stofnanir hafi sett sér skýr markmið um hvernig megi útrýma þessari meinsemd úr íslenskum vinnustöðum.
„Jafnrétti, kæru félagar, verður ekki náð nema við útrýmum ofbeldinu sem fylgir kynjamisrétti,“ sagði hún.
„Fyrir tveimur árum ræddi ég líka um það hvernig Ísland ætlar sér að takast á við tæknibreytingarnar sem ganga nú yfir samfélag okkar á ógnarhraða,“ sagði Katrín og bætti við að hillur bókaverslana væru að svigna um þessar mundir undan bókum þar sem rætt væri um dauðateygjur lýðræðisins.
Hún sagði útbreiðslu falsfrétta, upplýsingaóreiðu og „pólitíska lygi“ ekki nýja uppfinningu en tæknibreytingar hafi gert þróun þeirra ýktari en áður.
Þegar lýðræðið deyr verður það ekki þannig að fólk vakni einn daginn og það er skriðdreki fyrir utan gluggann. Miklu heldur þannig að það hverfur smám saman án þess að við veitum því eftirtekt, meiri völd færast í hendur stórfyrirtækjanna þar sem hin opinbera umræða fer fram, meiri völd færast í hendur þeirra sem hagnast á uppnámi stjórnmálanna,“ bætti hún við.
Þá sagði hún að um leið fólk þyrfti að vera meðvitað um þann mikilvæga árangur sem hefði náðst og þau risastóru framfararskref sem stigin hafa verið fyrir tilstilli Vinstri grænna þá verði alltaf til þau sem „horfa ekki á heildarmyndina heldur aðeins einstök mál þarf sem við höfum ekki náð öllu okkar fram.“
„Við þau segi ég: Enginn stjórnmálaflokkur í samsteypustjórn neins staðar í heiminum hefur nokkru sinni fengið hverju einasta máli framgengt,“ bætti hún við.