Sjö rifflar í ætt við árásarriffla eru í umferð hér á landi. Vísir greinir frá þessu í dag og vísar til upplýsinga frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða svokallaða DPMS-riffla, sem allir hafa verið fluttir til landsins með löglegum hætti. Hins vegar sé mögulegt að breyta slíkum vopnum, taka úr þeim pinna og gera hálf- eða alsjálfvirk.
Haft er eftir Jónasi Hafsteinssyni lögreglufulltrúa að eitt mál hafi komið upp í fyrra þar sem slíkur riffill hefði verið gerður hálfsjálfvirkur, þ.e. riffillinn hlóð sjálfur næstu kúlu eftir hvert skot án þess að byssumaðurinn þyrfti að standa í því sjálfur. Eigandi skotvopnsins var dæmdur og riffillinn gerður upptækur, segir Jónas en kveðst ekki muna eftir öðrum sambærilegum málum.