Alþingi hefur fengið tvö rafmagnsreiðhjól lánuð næstu tvær vikurnar, sem þingmenn og starfsmenn skrifstofunnar geta fengið lánuð í lengri og skemmri ferðir. Tilgangurinn með þessu er að hvetja til notkunar á reiðhjólum og kanna grundvöll fyrir því að þingið kaupi rafhjól til útlána, samkvæmt því sem kemur fram á vef Alþingis.
Þar segir einnig að þingverðir hafi um nokkurt skeið notað rafmagnshlaupahjól í sendiferðir, en Alþingi tekur þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, sem felst meðal annars í því að hvetja fólk til að nota umhverfisvæna samgöngumáta til og frá vinnu og á vinnutíma, hvort heldur er í stuttar vinnutengdar ferðir eða skottúra í einkaerindum.