Ráðgjafarnefnd Landspítala ber fullt traust til stjórnenda og starfsfólks spítalans í þeim niðurskurðaraðgerðum sem framundan eru. Tími er kominn til að gera spítalanum kleift að mæta þeim kröfum sem nútímasamfélag gerir til heilbrigðisþjónustu. Þetta segir Kristín Ingólfsdóttir formaður nefndarinnar og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.
Nefndin fundaði í dag og var helsta mál á dagskrá fjárhagsvandi spítalans og sá niðurskurður sem fyrirhugaður er í kjölfar sex mánaða uppgjör spítalans frá því í sumar. Það sýndi, að ef ekki yrði gripið til aðgerða, stefndi í rúmlega fjögurra milljarða framúrkeyrslu í ár. Kristín segir að þetta megi að hluta skýra með því að á undanförnum árum hafi spítalinn tekið á sig flókin og kostnaðarsöm verkefni án þess að fjármagn hafi verið aukið í samræmi við það.
„Svo margt hefur breyst á undanförnum árum. Aldurssamsetning þjóðarinnar, aukin tíðni langvinnra sjúkdóma og þeim fjölgar sem eru með marga og flókna sjúkdóma. Lyfjaónæmar bakteríur hafa komið fram á sjónarsviðið og sífellt er verið að þróa ný lyf, meðferðarúrræði og tæki sem í mörgum tilfellum eru mjög dýr. Tíðni geðsjúkdóma hefur aukist og það sama má segja um fíknivanda, einkum ungs fólks. Spítalinn hefur teygt sig til að geta sinnt þessum nýju kröfum, en á sama tíma hefur ekki verið mótuð heildarsýn sem skyldi yfir þessar breytingar og hvað þær kosta. Stjórnvöld hafa verið að styðja heilbrigðisþjónustuna á undanförnum árum með auknum fjárframlögum, en verkefnið er stærra en ég held að við höfum öll gert okkur grein fyrir. “
Kristín segir að hafa verði í huga að rekstur Landspítala sé flóknari en rekstur flestra annarra opinberra stofnana. „Ég hef kynnst rekstri stórra ríkisstofnana eftir að hafa verið rektor Háskóla Íslands í tíu ár, en rekstur Landspítala er um margt gjörólíkur því. Það eru gerðar spár um starfsemina, en það eru svo margir óvissuþættir í þessu sambandi. Hversu mörg slys verða og hversu mörg þeirra verða alvarleg? Hversu mörg bráðatilvik koma inn á spítalann? Munu smitsjúkdómar koma upp eða margir erlendir ferðamenn slasast eða veikjast?“
Kristín segist binda vonir við nýja heilbrigðisstefnu til ársins 2030. „Þar er kominn rammi um heilbrigðisþjónustu í landinu og gerðar verða aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn; nokkuð sem ekki hefur verið til áður. Við höfum verið allt of lengi í viðbrögðum, að setja plástra á spítalann, í stað þess að vinna samkvæmt stefnu.“
Kristín kallar eftir vandaðri samfélagsumræðu um hvernig heilbrigðiskerfi við viljum. „Og samhliða slíkri umræðu þurfum við að spyrja okkur: Við hvað ætlum við að miða? Ætlum við að miða okkur við það besta? Ef svo, þá þarf að fylgja með því fé, þó að sjálfsögðu verði alltaf að huga að hagræðingu.“
Spurð hvort við eitthvað sérstakt sé að sakast í þessu sambandi segir Kristín það ekki vera mat ráðgjafarnefndarinnar. „Það er mat okkar að það séu góðar og gildar skýringar á stærstu útgjaldaliðunum sem hafa farið framúr áætlun. Við berum fullt traust til stjórnenda Landspítalans og starfsfólks hans og gerum okkur grein fyrir því að þetta er erfitt og stórt verkefni.“
Ráðgjafarnefnd Landspítala starfar í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Á vefsíðu spítalans segir að hún skuli vera forstjóra og framkvæmdastjórn „til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans . „Skal nefndin m.a. fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans,“ segir á vefsíðunni. Nefndin hefur ekki ákvörðunarvald.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði nefndina í fyrra til fjögurra ára. Óskar Reykdalsson, lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er varaformaður og þá eru þar tveir fyrrverandi heilbrigðisráðherrar þau Álfheiður Ingadóttir og Jón Kristjánsson, auk Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur formanns Öryrkjabandalags Íslands, Þórunnar Sveinbjörnsdóttur formanns Landssambands eldri borgara, Hennýjar Hinz hagfræðings ASÍ, Péturs Magnússonar forstjóra Hrafnistu og Vilmundar Guðnasonar sem er prófessor og forstöðumaður Hjartaverndar.