Vinkonurnar Lóa Margrét Hauksdóttir og Snæfríður Edda Ragnarsdóttir Thoroddsen, báðar fæddar árið 2008, gengu í gær á fund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
Erindið var að afhenda honum undirskriftalista með um 200 nöfnum þar sem uppbyggingu við Vatnshólinn við Stýrimannaskólann er mótmælt.
Lóa var búin að skrifa borgarstjórn og borgarstjóra oftar en einu sinni en fékk engin svör. Þá fékk hún Snæfríði og fleiri í lið með sér við undirskriftasöfnunina og bað um áheyrn hjá borgarstjóra.
Þær eru í Háteigsskóla og vöktu athygli á því að skólinn væri orðinn of lítill. Þá væru umferðarslys við Háteigsskóla of tíð og því þyrfti að skoða umferðarhraða og merkingar við skólann.