Áætlun Íslandsbanka kemur Bjarna spánskt fyrir sjónir

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að áætlun Íslandsbanka, um að hætta viðskiptum við fjölmiðla sem ekki standist tiltekin skilyrði um kynjahlutföll viðmælenda og þáttagerðarfólks, koma sér spánskt fyrir sjónir. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, vakti athygli á frétt Vísis frá því í morgun um þetta mál.

Í frétt Vísis svarar Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, því til að bankinn hafi tekið upp fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sé að vinna eftir þeim með þessum aðgerðum. Þá vilji bankinn stunda viðskipti við þá sem stundi góða viðskiptahætti.

Edda Hermannsdóttir samskiptastjóri hjá Íslandsbanka.
Edda Hermannsdóttir samskiptastjóri hjá Íslandsbanka. Mynd/Íslandsbanki

Sigmundur spurði Bjarna út í viðhorf hans til þessa máls. Benti hann á að Íslandsbanki væri ríkisbanki og væri með þessu að hlutast til um dagskrá fjölmiðla og mannaráðningar þar með fjármagni sínu og afli. Sagði hann bankann beita fjármagni sínu, sem væri í raun ríkisfé og fé viðskiptavina bankans, í þvingunarskyni.

„Er þetta ekki hálf óhugguleg þróun?“ spurði Sigmundur Bjarna.

Bjarni sagðist viðurkenna að þessar áherslur bankans kæmu honum spánskt fyrir sjónir. Sagðist hann velta því fyrir sér af hverju bankinn, ef hann ætlaði að gera þetta að aðalatriði í starfsemi sinni, beindi þessu einnig að tekjuhlið sinni. „Ætlar bankinn, ef menn ætla að taka þessa stefnu og þróa þessa hugmyndafræði eitthvað lengra, að neita viðskiptum við þá sem starfa ekki samkvæmt þessari hugmyndafræði en ætla að eiga viðskipti við bankann þannig að bankinn hagnist á því? En þegar bankinn þarf að líta á það sem kostnað eða útgjöld þá eigi einhver önnur flokkun við?“ sagði Bjarni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Hari

Sagðist hann ekki alveg sjá hvert bankinn væri að fara með þessu, en að út frá fréttum virtist bankinn vera að reyna að hvetja til þess að jafnréttismál væru ofarlega á baugi. „Það er út af fyrir sig gott og blessað. En það eru takmörk fyrir því hversu langt menn geta siglt frá þeim áherslum sem birtast í eigendastefnu ríkisins,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka