„Ég er fyrst og fremst ánægður með kjörsóknina,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, í samtali við mbl.is.
Íbúar Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykktu í gær tillögu um að sveitarfélögin fjögur verði sameinuð í eitt. Mest var kjörsóknin í Djúpavogshreppi, 78%, en minnst í Fljótsdalshéraði eða 53,6%.
Mesta samstaðan var í Fljótsdalshéraði, stærsta sveitarfélaginu, þar sem 92,9% sögðu já við sameiningunni. Mesta andstaðan var í Djúpavogshreppi þar sem 35,5% sögðu nei en 63,7% já.
„Fyrr mætti nú vera ef allir væru sammála,“ segir Gauti. Hann segir niðurstöðuna í Djúpavogshreppi bera vott það að þar búi fólk með ákveðnar skoðanir á ýmsum málum „Það er ekkert nema gott um það að segja,“ segir hann. „Þetta var spurning um einfaldan meirihluta og hann er til staðar og vel það og það er aðalmálið þegar uppi er staðið,“ bætir Gauti við.
Við sameiningu sveitarfélaganna verður til nýtt sveitarfélag með um fimm þúsund íbúa. Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar var því velt upp hvort áhrif fámennari sveitarfélaganna myndu minnka með sameiningunni og að Fljótsdalshérað myndi gleypa þau minni. Gauti segir að með heimastjórnum í „gömlu“ sveitarfélögunum fjórum verði brugðist við einmitt þessum áhyggjum.
Heimastjórnin verða fjórar talsins og munu þrír fulltrúar sitja í hverri heimastjórn. Tveir verða kosnir í beinni kosningu samhliða sveitarstjórnarkosningum og einn verður tilnefndur af sveitarstjórn. „Þessir þrír aðilar eru í aðstöðu til að taka ýmsar ákvarðanir varðandi sitt nærsamfélag eins og deiliskipulag, leyfisveitingar og þess háttar,“ segir Gauti.
Sveitarfélagið verður landfræðilega langstærsta sveitarfélag landsins sem nær yfir um 11 þúsund ferkílómetra og í því samhengi hefur verið bent á að Djúpavogshreppur sé frekar afskekktur út frá hinum sveitarfélögunum þremur. „Við höfum kosið á að líta á það sem styrkleika þessa verkefnis, það eru fjarlægðirnar. Hjá okkur eru fjarlægðirnar slíkar að það er ekki annað í boði en að halda uppi því þjónustustigi sem er til staðar og helst að bæta við,“ segir Gauti.
Áætlað er að nýtt sveitarfélag taki formlega til starfa á fyrri hluta næsta árs, líklega í lok mars eða byrjun apríl. „Ég held að það megi ekki dragast of lengi,“ segir Gauti.
Næsta skref felst í að hvert sveitarfélag skipar fulltrúa í sérstaka stjórn til undirbúnings nýs sveitarfélags. „Mér finnst ekki ólíklegt að það verði þeir sömu og sátu í undirbúningsnefndinni, það er fólkið sem er mest inni í málum,“ segir Gauti.
Undirbúningsstjórnin gerir tillögu til sveitarstjórnarráðuneytisins um með hvaða hætti sameining öðlast gildi, svo sem hvenær verður kosið til nýrrar sveitarstjórnar og gildistöku sameiningarinnar. Þær ákvarðanir verða kynntar við fyrsta tækifæri.
Það liggur í augum uppi að staða bæjar- og sveitarstjóra í sveitarfélögunum fjórum verður lögð niður og nýr sveitarstjóri tekur við sameinuðu sveitarfélagi. „Ég hef lagt gríðarlega mikið á mig undanfarnar vikur og mánuði til að missa vinnuna,“ segir Gauti og hlær.
Hann segist ekki hafa leitt hugann að því hvort hann muni sækja um stöðu sveitarstjóra nýs sveitarfélags. „Áhugi minn á samfélagsmálum hefur ekkert minnkað þó svo að það hafi orðið til nýtt sveitarfélag og það verður þá bara að koma í ljós.“
Nafn nýs sveitarfélags liggur ekki fyrir. Ný sveitarstjórn mun velja nafnið en líklegt er að haldin verði íbúakosning þar sem valið verður á milli tillagna frá íbúum. Sameiningarnefndin valdi vinnuheitið Sveitarfélagið Austurland og segir Gauti að honum finnist það hljómar ágætlega.
„Menn hafa líka nefnt Múlaþing. En ég er viss um að það eiga eftir að koma góða hugmyndir og ég geri ráð fyrir að það verði kosið um það þegar þar að kemur,“ segir hann.