Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt.
Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.
Þau fundu sig vel í hlaupinu og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar.
Fimm árum eftir að hjónin fóru fyrst út að hlaupa í hverfinu tóku þau þátt í sínu fyrsta stóra hlaupi og var þá hlaupið hálft maraþon yfir Eyrarsundsbrúna.
„Mitt fyrsta heila maraþon var á Mývatni 2001 og svo fórum við til London 2002,“ segir Guðmundur.
Þegar þarna var komið hafði hlaupabakterían tekið sér bólsetu í hjónunum svo um munaði. Þau tóku því næst þátt í New York-maraþoni sem var að vonum fjölmennt.
„Ég kann nú betur við mig í fámennum hlaupum eins og á Mývatni,“ segir Guðmundur og hlær.
„Næst kom Berlín og svo árið 2008 hlupum við í Boston, Frankfurt og svo Tíbet. Þar var hlaupið í 3.700 metra hæð í stafalogni og þrjátíu stiga hita. Þarna var 30% minna súrefni en maður er vanur,“ segir hann.
„Þetta var rólegt hlaup, það var ekkert annað hægt. Við vorum þarna uppi í fjöllunum Indlandsmegin. Þetta er kallað Litla-Tíbet,“ segir Lilja og segir ferðina hafa verið mikla upplifun.
Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. „Þessi hlaup eru fjölmennust og það var einhver sem bjó til klúbb fyrir fólk sem hefur klárað öll þessi hlaup,“ segir hann en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga.
„Lilja kláraði hlaupið í Japan og þá uppgötvaðist að ég ætti eftir Chicago. Ég ákvað þá að drífa mig í það hlaup og var að koma þaðan núna nýlega,“ segir Guðmundur og sýnir blaðamanni tvær veglegar medalíur þeirra hjóna þar sem skeytt er saman sex hringjum með nöfnum hlaupaborganna. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.
Besti tími Guðmundar í heilu maraþoni er 3.38 og Lilju er 4.05.
„Það hægist á okkur með aldrinum, enda förum við ekkert lengur með því hugarfari að ná besta tímanum,“ segir Guðmundur að lokum.
Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.