Loftslagsváin stærsta málið

Norðurlandaþing hófst í dag í sænska þinghúsinu.
Norðurlandaþing hófst í dag í sænska þinghúsinu. NN/Magnus Fröderberg

Umhverfismál eru helsta málefnið sem fjallað verður um á Norðurlandaráðsþingi sem var formlega sett í þinghúsinu í Stokkhólmi í dag. Ungt fólk og þeirra hlutverk þar er mikilvægt og áberandi á þinginu í ár.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir loftslagsvána mikilvægasta málið í dag og hlutur unga fólksins skipti þar miklu. Það sé meðal annars þeim að þakka og loftslagsverkföllum þeirra að loftslagsmálin eru orðin að meginstraumi umræðu stjórnmálanna. Þeir sem afneita loftslagsbreytinga hafa fengið aukið vægi í umræðunni en áður en það er hluti af lýðræðishefðinni, segir Katrín við upphaf leiðtogafundar Norðurlandaráðs að lokinni setningu þingsins.

Lýðræðið er mikilvægasta aflið að sögn Katrínar og hún segir mikilvægt að skapa hvata til þess að draga úr losun og breyta skattlagningu. Eins þurfi að tryggja að hagkerfið ýti undir eðlilega hringrás. Hún nefndi sem dæmi af íslenskum stjórnvöldum um að lengja fæðingarorlof. Með því aukist lífsgæði íbúanna og um leið er hægt að draga úr losun ofl.  

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði Norðurlandaþingið í Stokkhólmi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði Norðurlandaþingið í Stokkhólmi. Johannes Jansson/norden.org

Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs 2019, sagðist hafa verið minntur á þetta þegar hann var nýverið á Íslandi - að norrænu ríkin eiga sér sameiginlega sögu og markmið. Hann segir að þau berjist meðal annars saman fyrir frjálsum verslunarsamningum og taka sameiginlega þátt í stórum heimsviðburðum. 

Strax á opnunardegi þingsins, á leiðtogafundi hinna 87 þingmanna Norðurlandaráðs og forsætisráðherranna, verða loftslagsmál og sjálfbærni í forgrunni.

En umfjöllunarefni þingsins eru ekki bara loftslagsmál og sjálfbærni. Óstöðugt ástand á alþjóðavettvangi setur einnig mark sitt á þingið og öryggismál verða sýnileg í umræðunum.

Meðal annars ætlar ráðið að fjalla um metnaðarfulla nýja stefnu varðandi samstarf um samfélagsöryggi á Norðurlöndum. Í stefnumótunin sem liggur til grundvallar umfjölluninni er að finna margar tillögur að því hvernig norrænu ríkin gætu starfað saman um samfélagsöryggi.

„Öryggis- og varnarmál fá stöðugt meira vægi í norrænu samstarfi og það er ekki að ástæðulausu. Með hliðsjón að því sem nú á sér stað í Miðausturlöndum og óstöðugleikann á pólitískum vettvangi alþjóðlega er rík ástæða til þess að vinna enn nánar saman að öryggismálum á Norðurlöndum,“ segir Hans Wallmark.

Á morgun leggja bæði norrænu utanríkisráðherrarnir og varnarmálaráðherrarnir fram skýrslur sínar fyrir fulltrúa á þinginu. Auk þess verða á dagskrá fleiri málefni sem varða flóttafólk, fólksflutninga og aðlögun, meðal annars tvær tillögur sem varða samstarf um átak gegn heiðurskúgun.

 Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrði í morgun fimmta og síðasta fundi samstarfsráðherra á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. 

Framtíðarsýn norræns samstarfs – um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims – var meginumræðuefnið á fundi samstarfsráðherranna sem fór fram í Stokkhólmi. 

Rætt var um hvernig norrænt samstarf ætti í stórauknum mæli að snúast um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hvernig tryggja megi að samfélög og efnahagslíf á Norðurlöndunum séu sem sjálfbærust. 

Markmiðið er að vinna saman á þeim sviðum þar sem Norðurlöndin eru sterkari saman, þannig að norrænt samstarf verði raunveruleg viðbót við aðgerðir einstakra landa s.s. varðandi kolefnishlutleysi, með því að styðja við vöxt hringrásarhagkerfisins og efla grænan hagvöxt sem tryggir samkeppnishæfni til framtíðar. Gert er ráð fyrir að samnorræn verkefni sem styðji við græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd liggi fyrir á næsta ári. 

Á síðustu fimm árum hefur á sjötta tug hindrana milli Norðurlandanna verði rutt úr vegi, sem gerir Norðurlöndin að einu samþættasta svæði heims og gerir þannig íbúum Norðurlandanna auðveldara með vinna, stunda nám og stofna fyrirtæki í hinum löndunum. Siv Friðleifsdóttir, formaður norræna Stjórnsýsluhindranaráðsins, gaf ráðherrunum skýrslu um starf ráðsins en að draga úr landamærahindrunum er ekki síst mikilvægt fyrir okkur, þar sem hlutfallslega flestir Íslendingar búa í öðru Norrænu landi, eða 7-8%.

Vestnorræn málefni voru einnig til umfjöllunar en eitt af markmiðum formennsku Íslands hefur verið að auka norrænt samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu þ.m.t. við Færeyjar og Grænland. Samþykkt var að styrkja framkvæmd NAUST sem er ný stefnumótun um málefni svæðisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert