Vinnustöðvun liggur fyrir á morgun

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í Karphúsinu í dag.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í Karphúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að öllu óbreyttu ættu úrslit atkvæðagreiðslna um vinnustöðvun félaga í Blaðamannafélagi Íslands að liggja fyrir síðdegis á morgun. Kosið verður um fjórar vinnustöðvanir í næsta mánuði og er sú fyrsta fyrirhuguð föstudaginn 8. nóvember.

Fulltrúar Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins hittust á stuttum fundi hjá ríkissáttasemjara núna í morgun og hafa auk þess verið boðaðir á vinnufund þar síðar í dag.

Kosið verður á fimm stöðum á morgun. Fyrst verður kosið á Morgunblaðinu klukkan 9:30 um morguninn, á RÚV klukkan 10:30 og kosið verður á Sýn klukkan 11:30.

Klukkan 12:30 verður kosið á Fréttablaðinu og klukkan 13:30 til 17:00 í húsnæði Blaðamannafélagsins í Síðumúla. Talið verður að loknum kjörfundi og úrslitin birt í beinu framhaldi.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert