Plana að kveikja í geitinni

IKEA-geitinni var komið fyrir um miðjan október.
IKEA-geitinni var komið fyrir um miðjan október. mbl.is/Árni Sæberg

Boðað hefur verið til viðburðarins „Kveikjum í geitinni, þau geta ekki stöðvað okkur öll“. Að viðburðinum stendur jarmsíðan Meme ísl, sem nýtur töluverðra vinsælda á Instagram þar sem yfir 8.000 manns fylgja henni.

Með „geitinni“ er vitanlega átt við IKEA-geitina margfrægu. Saga geitarinnar er rakin á umræddum Facebook-viðburði en þarr segir að árin 2010-2015 hafi geitin orðið fyrir tjóni á hverju ári, ýmist vegna veðurs, íkveikju, eða rafmagnsbilunar, sem varð til þess að hún kveikti eitt sinn í sjálfri sér. Hafa sumir því gengið svo langt að segja fall geitarinnar fastan lið í jólaundirbúningnum, og að þeir komist ekki í jólaskap fyrr en geitin er feig. Jólin hafa verið þeim einstaklingum þungbær síðustu ár því þrenn jól hafa nú liðið án þess að geitin hafi brunnið.

Eins og sjá má er tilræðið þaulskipulagt.
Eins og sjá má er tilræðið þaulskipulagt. Skjáskot/Facebook

Nú stendur til að bæta úr því, en ljóst er að ekki er um létt verk að ræða enda hefur geitin stóra lífverði sér til halds og trausts sem vakta hana allan sólarhringinn. Þannig hafa tveir hópar verið handteknir síðustu ár fyrir tilraun til íkveikju. En margar hendur vinna létt verk og nú hafa rúmlega 500 manns boðað komu sína á geitabrennuna, sem fara á fram aðfaranótt fullveldisdagsins.

Þrátt fyrir það þurfa forsvarsmenn IKEA sennilega litlu að kvíða. Geitabrennan er vitanlega grín, eins og forsvarsmenn viðburðarins benda sjálfir á og firra sig um leið allri ábyrgð á mögulegum örlögum geitarinnar.

Grínið svipar til samskonar viðburðar sem boðaður var í Bandaríkjunum í haust undir nafninu Storm Area 51  They can't stop us all (Ráðumst inn á Svæði 51. Þau geta ekki stöðvað okkur öll) en þar var hugmyndin að ráðast inn í Area 51 herstöðina í Nevada, þar sem samsæriskenningasmiðir vilja meina að Bandaríkjaher geymi geimverur. Þegar hólminn var komið varð þó ekkert af innrásinni, geimverurnar dúsa enn á Svæði 51, og sennilega verður IKEA-geitin óbrennd að kvöldi fullveldisdagsins og jólin enn á ný ónýt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert