Vilja leggja meiri áherslu á Grænland

Ein af flugvélum Air Iceland Connect.
Ein af flugvélum Air Iceland Connect. mbl.is/Árni Sæberg

Air Iceland Connect hyggur á aukin umsvif á Grænlandi en þar verða endurbætur gerðar á þremur flugvöllum á næstu árum, við það mun flugferðum til og frá Grænlandi fjölga og búist er við ferðamannasprengju. Engar fyrirætlanir eru um að félagið hefji innanlandsflug á Grænlandi.

Þetta kemur fram á vefsíðu grænlenska dagblaðsins Sermitsiaq, en RÚV greindi einnig frá málinu.

Umræddir flugvellir eru í Nuuk, Ilulissat og Qaqortoq. Tveir þeir fyrrnefndu verða alþjóðlegir, en flugvöllurinn í  Qaqortoq verður ætlaður til innanlandsflugs. 

Í frétt Sermitsiaq er haft eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Air Iceland Connect, að Grænland sé einn af lykilmörkuðum félagsins. „Ég ætla ekki að greina frá fyrirætlunum okkar í smáatriðum. Áætlanir okkar fyrir árið 2022 eru ekki fullunnar,“ segir Árni í viðtali við Sermitsiaq. 

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect. mbl.is/Árni Sæberg

„En við sjáum fyrir okkur að styrkja, já og auka við flugferðir okkar á milli Íslands og Grænlands með þessu nýja skipulagi flugvalla. Ástæðan er að þessir nýju flugvellir verða opnaðir og að áhugi ferðamanna á Grænlandi fer sífellt vaxandi. Fólk sér ýmsa möguleika við að fara í frí til Grænlands og það þyrstir í ævintýri. Þess vegna mun ferðamönnum til Grænlands fjölga,“ spáir Árni.

Í viðtalinu er hann spurður um hvort félagið hafi fyrirætlanir um að hefja innanlandsflug á Grænlandi. „Við höfum ekki skoðað það. Það er ekki á áætlunum okkar,“ svarar Árni. „En hvað gæti gerst eftir 4-5 ár - það get ég ekki sagt fyrir um.“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert