Óhjákvæmilegt er að stefna í átt að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum, þar á meðal sáluhjálp og félagslegri þjónustu, óháð ríkinu. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Áslaug Arna að krafan um jafnræði á milli ólíkra trú- og lífsskoðunarfélaga verði sífellt meira áberandi. „Sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan,“ skrifar hún. „Fleiri og fleiri aðhyllast þá skoðun að það sé ekki hlutverk ríkisins að fjármagna trúfélög.“
Í greininni skrifar dómsmálaráðherra að hún sé þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn aðskilnaður verði á endanum milli hennar og ríkisvaldsins.
„Nýlegt samkomulag milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar felur í sér að hún verður ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun. Hún mun fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði. Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar,“ skrifar Áslaug Arna.
Hún segir að ef boðskapur kirkjunnar hafi vægi og þýðingu í aðstæðum hversdagsins og ef fólk beri traust til hennar og leiti þangað verði kirkjan áfram þjóðkirkja, óháð lagalegri og stjórnskipunarlegri stöðu hennar í framtíðinni.