Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði ummæli ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins í pallborði í Þjóðarspegli Háskóla Íslands í síðustu viku sláandi en þar voru málefni innflytjenda á vinnumarkaði til umræðu.
„Meðal annars kom fram að hann teldi ekki ástæðu til þess að fræða innflytjendur frekar um réttindi sín á vinnumarkaði. Það væri á ábyrgð hvers og eins að afla sér upplýsinga þar að lútandi. Hann teldi ekki ástæðu til að styrkja sérstaklega íslenskukennslu því að innflytjendur nenntu ekki að læra tungumálið og hann tók sérstaklega fram hvað það væri gott að auðvelt væri að losna við fólk á íslenskum vinnumarkaði í því samhengi,“ sagði Þorsteinn þar sem hann rifjaði upp ummæli ráðuneytisstjórans.
Þorsteinn sagði ummælin ganga þvert gegn gildandi framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir þremur árum og spurði hvort ráðuneytisstjórinn hefði verið að lýsa stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði að í ráðuneytinu væri unnið eftir framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og að þar hefði engin stefnubreyting orðið. Hann hafi því miður ekki komist sjálfur á umrædda ráðstefnu vegna ríkisstjórnarfundar sem dróst á langinn.
„Ég hef fengið fregnir af þessum panel eða umræðum sem áttu sér stað og heyrt af pistlum sem hafa gengið ritaðir af að ég held borgarfulltrúum Samfylkingarinnar. Ég hef ekki haft tækifæri til að setja mig nákvæmlega inn í þann pistil en ég hef haft fregnir af málinu,“ sagði Ásmundur.
Ráðherra ítrekaði að engin stefnubreyting hefði orðið og sagði að þingmaðurinn hefði greinilega náð að túlka það sem ráðuneytisstjórinn sagði betur en það sem hann hefði sjálfur fengið fregnir af.
„Mér fannst ummælin svo alvarleg að ég sá ástæðu til að ræða þau við þó nokkra fundarmenn sem þarna voru og lesa opið bréf til ráðherra um þau ummæli sem ráðherra virðist ekki hafa lesið enn þá ef marka má orð hans hér,“ sagði Þorsteinn og hélt áfram:
„Fólk sem sat þennan fund var mjög slegið yfir yfirlýsingum ráðuneytisstjóra ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda af því að þetta lýsir auðvitað, ég get ekki annað sagt, gríðarlegum fordómum gagnvart stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og gríðarlegu áhugaleysi ráðuneytisins og ráðuneytisstjóra þess á að sinna málefnum þessa hóps.“
Hann spurði hvort ráðherra hygðist leiðrétta ummæli ráðuneytisstjórans eða biðjast afsökunar á þeim.
Ásmundur ítrekaði að ríkisstjórnin hefði gert ýmislegt jákvætt þegar kemur að málefnum innflytjenda.
„Varðandi ummæli ráðuneytisstjóra í panel á umræddu málþingi segi ég eins og er að það er algjörlega óbreytt stefna hjá núverandi ríkisstjórn, sem verið hefur frá fyrsta degi, að gera betur við þennan málaflokk. Ég er ekki í stakk búinn, þar sem ég var ekki á staðnum og hef ekki séð neinar upptökur af þessu eða útprentanir, til að svara fyrir ummæli þegar þingmaður túlkar pistil hjá manneskju sem var þar,“ sagði Ásmundur. Hann bætti við að ríkisstjórnin myndi halda áfram að halda úti góðri þjónustu við innflytjendur.