Einn morgun í vikunni var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kölluð að heimili í Austurbænum en þar hafði verið brotist inn og stolið munum af húsráðendum. Var meðal annars tölvum, tækjum og öðru fémætu stolið.
Í íbúðinni búa erlendir verkamenn, sem hafa oft skamma veru á Íslandi og tjónið því tilfinnanlegt fyrir fólkið, eins og iðulega er með innbrot og þjófnaði, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Rannsóknarlögreglumaður fékk fljótlega upplýsingar um að samstarfsmaður íbúa hefði verið rekinn úr starfi fyrr um daginn og hefði líklega bókað flug úr landi að kvöldi sama dags.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði sambandi við starfsmenn embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og óskaði eftir því að maðurinn yrði stoppaður á leið úr landi og skóbúnaður hans kannaður. Var það gert til þess að bera saman við fótspor sem fundust á vettvangi glæpsins.
Reyndist hugboð rannsóknarlögreglumannsins rétt og var maðurinn handtekinn í Leifsstöð þar sem hann var leið úr landi. Í ljós kom að skór hans passa við fótsporin sem fundust á vettvangi. Allt þýfið úr innbrotinu fannst í farangri mannsins og er málið á lokastigum rannsóknar.