Kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna skýrslu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði til þess að fjalla um aðild Íslands að EES-samningnum, var rúmlega 25,8 milljónir króna að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við skriflegri fyrirspurn mbl.is um það hver endanlegur kostnaður vegna skýrslugerðarinnar hefði verið en upphaflega kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rúmar 25,5 milljónir króna að sögn ráðuneytisins.
Mbl.is spurði einnig um sundurliðun kostnaðarins. Fram kemur í svarinu að Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði fengið greiddar 7,2 milljónir króna fyrir verkið sem formaður starfshópsins en aðrir sem sátu í hópnum, þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, og Bergþóra Halldórsdóttir lögfræðingur, 4 milljónir hvor að frátöldum virðisaukaskatti.
Þá voru starfsmanni hópsins greiddar 4 milljónir króna að frátöldum virðisaukaskatti. Ferðakostnaður nam rúmlega 3,5 milljón króna og annar kostnaður við vinnslu skýrslunnar, eins og vegna umbrots, hönnunar og prentunar, var rúmar 3 milljónir.