Reikna með minni starfsmannakostnaði en WOW air

Stofn­end­ur og for­svars­menn flug­fé­lags­ins Play.
Stofn­end­ur og for­svars­menn flug­fé­lags­ins Play. mbl.is/Hari

Með samn­ing­um sín­um við Íslenska flug­stétt­ar­fé­lagið (ÍFF) reikn­ar flug­fé­lagið Play með því að kostnaður við flug­menn og flugliða verði á bil­inu 27 til 37 pró­sent lægri en sami kostnaður var hjá WOW air. Auk þess hyggst flug­fé­lagið ná mun betri nýt­ingu á hverja áhöfn sína en Icelanda­ir, eða á bil­inu 800-900 klukku­stund­um á ári hverju á móti um 550 klukku­stund­um hjá Icelanda­ir.

Þetta kem­ur fram í frétt Kjarn­ans í dag, en miðill­inn vís­ar til fjár­festa­kynn­ing­ar sem Íslensk verðbréf unnu og kynntu fyr­ir fjár­fest­um í síðustu viku. Í ann­arri frétt Kjarn­ans um efni þess­ar­ar kynn­ing­ar kem­ur fram að flug­fé­lagið leiti eft­ir því að fá tæpa 1,7 millj­arða króna frá ís­lensk­um fjár­fest­um, til viðbót­ar við 5,5 millj­arða króna sem breski fag­fjár­festa­sjóður­inn At­hena Capital hef­ur þegar lánað fé­lag­inu.

Greint var frá því á mbl.is á þriðju­dag að Play hefði þegar gengið til samn­inga við Íslenska flug­stétt­ar­fé­lagið um gerð kjara­samn­inga við flug­menn og flugliða. Stétt­ar­fé­lagið sem um ræðir hét áður Íslenska flug­manna­fé­lagið og var stétt­ar­fé­lag flug­manna hjá WOW air. Í sum­ar var nafni fé­lags­ins hins veg­ar breytt og lög­um þess sömu­leiðis, til þess að flug­fé­lagið gæti náð til fleiri stétta.

Arn­ar Már Magnús­son for­stjóri fé­lags­ins sagði í sam­tali við mbl.is eft­ir kynn­ing­ar­fund fé­lags­ins á þriðju­dag að sér­stök áhersla hefði verið lögð á kostnaðar­hliðina í aðdrag­anda stofn­un­ar fé­lags­ins og að fé­lagið reiknaði með því að næsta sum­ar yrði starfs­fólk fé­lags­ins 200-300 tals­ins.

ASÍ lýsti yfir áhyggj­um

Alþýðusam­band Íslands sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu eft­ir kynn­ingu Play á þriðju­dag­inn þar sem sam­bandið sagðist treysta því „að hið nýja fyr­ir­tæki ætli sér ekki að keppa á ís­lensk­um flug- og ferðamarkaði á grund­velli fé­lags­legra und­ir­boða“.

Í kjöl­farið sagði Berg­lind Haf­steins­dótt­ir, formaður Flug­freyju­fé­lags­ins Íslands, að stofn­un nýrr­ar deild­ar fyr­ir flugliða inn­an Íslenska flug­stétt­ar­fé­lags­ins vekti upp spurn­ing­ar.

„Af hverju ætti fyr­ir­tæki að vera að þessu nema þá til að geta und­ir­boðið þá samn­inga sem Flug­freyju­fé­lagið er með við sína viðsemj­end­ur?“ spurði Berg­lind, í sam­tali við mbl.is.

María Mar­grét Jó­hanns­dótt­ir, sam­skipta­stjóri Play, sagðist telja að al­menn sátt myndi ríkja með kjara­samn­ing­ana sem fé­lagið hefði gert við ÍFF. Mark­miðið væri að gera Play að eft­ir­sótt­um vinnustað og sann­gjarn­ir kjara­samn­ing­ar væru hluti af því mark­miði.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert