Viðsnúningur varð í rekstri Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs á milli ára og skilaði flokkurinn þannig hagnaði upp á rúmar 33,6 milljónir króna á síðasta ári miðað við rúmlega 13,7 milljón króna tap árið á undan. Þetta kemur fram í ársreikningi hans.
Flokkurinn fékk ríkisframlög upp á tæplega 124,5 milljón króna miðað við tæpar 56 milljónir árið 2017. Framlög sveitarfélaga námu rúmum 3,2 milljónum og framlög lögaðila rúmum 3,3 milljónum króna. Þá greiddu einstaklingar rúmar 13,8 milljónir til flokksins.
Tekjur VG voru alls rúmar 146,6 milljónir króna en rekstrargjöldin rúmar 112,2 milljónir. Meðal þeirra nafngreindu einstaklinga sem styrktu flokkinn eru allir þingmenn hans nema Kolbeinn Óttarsson Proppé. Hins vegar eru ekki birt nöfn þeirra sem styrktu flokkinn um 200 þúsund krónur eða lægri upphæðir.