„Ég á von á því að umhverfis- og skipulagssvið fari bara vel yfir þetta,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is um tilmæli sem umboðsmaður borgarbúa sendi Reykjavíkurborg vegna framkvæmda í miðborginni og á öðrum viðkvæmum rekstrarsvæðum.
Segir Dagur að honum sýnist tilmæli umboðsmanns í samræmi við þau skilaboð sem undanfarið hafa komið frá umhverfis- og skipulagssviði varðandi úrbætur á kynningu og frágangi framkvæmdasvæða. „Þetta mun nýtast inn í vinnuna sem er í gangi.“
Spurður um þá gagnrýni sem Reykjavíkurborg hefur hlotið vegna framkvæmda í miðborginni undanfarið segir Dagur: „Það er kallað eftir því að fá lengri fyrirvara og meiri þátttöku í útfærslu varðandi tímasetningu á framkvæmdum, og það er eitt af því sem er fullur áhugi á að gera.“