Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist sammála því að ákveðin tilfærsla hafi verið á valdi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Segist hann álíta þá valdatilfærslu sem eina af alvarlegustu afleiðingum hrunsins.
Páll var gestur Sigmars Guðmundssonar í Silfrinu í dag ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Karen Kjartansdóttur og Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.
Miðflokkurinn auglýsti í síðustu viku eftir reynslusögum fólks sem hefur lent í „kerfinu“. Sagði flokkurinn að forgangsefni þeirra væri að takast á við „báknið“.
Sigmundur sagði í Silfrinu í dag að markmiðið með reynslusögunum væri að kortleggja eðli vandans svo hægt sé að takast á við hann með lausnum. Reynslusögurnar verða nýttar til að vinna stefnu, frumvörp og þingsályktunartillögur til að einfalda regluverk.
„Ég held að það sé mikil þörf á þessu. Þetta kemur í framhaldi af því að ég og aðrir þingmenn höfum heyrt endalausar svona sögur,“ sagði Sigmundur.
„Það er af mjög mörgum ástæðum mjög mikilvægt að ná að hemja báknið. Hvorki við né önnur vestræn lönd munum hafa efni á því að standa undir því bákni sem hefur verið byggt upp vegna þess við einfaldlega munum þurfa meira og meira fjármagn. Ég er ekki með þessu að segja að embættismenn eða aðrir opinberir starfsmenn séu óþarfir. Alls ekki. En það er ekki hlutverk kerfisins að stjórna,“ sagði Sigmundur.
Páll Magnússon sagði framtakið vera jákvætt og að ánægjulegt væri að flokkurinn tæki þetta fyrir.
„Ég get verið sammála Sigmundi Davíð þegar hann er að lýsa vandanum. Allt þetta rót sem kom í kjölfar hrunsins hefur falið í sér tilfærslu á valdi frá þeim sem þjóðin kaus í lýðræðislegum kosningum til að hafa valdið, til embættismanna sem engin kaus til að hafa þetta vald. Þetta hef ég alltaf litið á sem eina alvarlegustu afleiðingu hrunsins,“ sagði Páll.
Þá sagði Þóra Kristín að Miðflokkurinn hafi verið að sækja fylgi frá Sjálfstæðisflokknum með því að höfða til „litla mannsins“. Séu reynslusögurnar eflaust í samræmi við það.
„Miðflokkurinn er náttúrulega að gera út á einhverskonar læti og er þannig flokkur sem sækir fram. Hann sækir þarna beint inn í hjarta Sjálfstæðisflokksins til svona litla reiða mannsins sem hefur farið halloka í samskiptum við kerfið. Þangað ætlar Sigmundur að sækja. Hann er búinn að ná svolítið mörgum úr Sjálfstæðisflokknum, svona alþýðufólki sem finnst vera of mikill elítuismi í Sjálfstæðisflokknum.“