Félagar í Stjórnarskrárfélaginu dreifðu upplýsingum til þeirra sem sóttu umræðufund um endurskoðun stjórnarskrárinnar í Laugardalshöll um helgina og fengu sömuleiðis að fylgjast með fundinum, án þess þó að hafa verið valin í það úrtak sem tók þátt í umræðunum.
Félagsmenn dreifðu frumvarpi sem spratt upp úr vinnu stjórnlagaþings á árunum 2010-2012 til þátttakenda fundarins áður en hann hófst á laugardag. Einnig var einn meðlimur úr félaginu í úrtakinu og fór hann gegn reglum fundarins og ræddi við fólk á öðrum borðum en því sem hann sat við.
Nokkrir félagar í Stjórnarskrárfélaginu fengu að vera viðstaddir fundinn þrátt fyrir að vera ekki í úrtakinu. Þeir fengu ekki að taka þátt í umræðunum sem fóru fram á borðum en gátu talað við fólk þegar það tók sér hlé og stóð frá borði.
„Þau létu alla sem vildu fá eintak,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, í samtali við mbl.is. Hún segir að fulltrúi frá Stjórnarskrárfélaginu hafi fyrir tilviljun verið í úrtakinu á fundinum.
Heimildarmaður mbl.is sem sat fundinn segir að sá einstaklingur hafi farið gegn reglum um að hafa ekki áhrif á umræðu á öðrum borðum en það sem hann sat við.
„Hann kvartaði aðeins yfir því að mega ekki tala við hin borðin,“ segir Guðbjörg. „Hann gerði þetta í hléi en ekki á meðan umræðum stóð, í hléi hóf hann að ganga á milli borða,“ segir Guðbjörg. Hún segir að viðkomandi hafi verið fullmeðvitaður um reglurnar en ekki hlýtt þeim í fyrstu.
Þá segir hún að einnig hafi fleiri fulltrúum úr Stjórnarskrárfélaginu verið hleypt inn á fundinn, en þeim hafi ekki verið heimilt að blanda sér í umræðurnar á meðan þær fóru fram. Þær fóru fram á borðum og var þátttakendum ekki leyft að fara á milli þeirra, að sögn Guðbjargar.
Þátttakandi á fundinum sem mbl.is ræddi við sagði að það hefði vakið furðu hans að sjá á fundinum hóp fólks frá Stjórnarskrárfélaginu. Hann hafði talið að einungis þeir sem voru í úrtaki til fundarins ættu að fá að vera á svæðinu.
„Það kom einna mest á óvart er að þau virtust hafa getað knúið það í gegn að fá að vera þarna þó að þau hefðu ekki verið valin af handahófi,“ sagði þessi þátttakandi í umræðukönnuninni í samtali við mbl.is.
Spurð hvort viðvera félaga í Stjórnarskrárfélaginu og dreifing á áróðri sé ekki bjagandi fyrir niðurstöður fundarins, segir Guðbjörg að hún telji svo ekki vera. Hún telur ekkert athugavert við það að fólki frá Stjórnarskrárfélaginu hafi verið hleypt á fundinn og hún fagni því að fólk sýni málinu áhuga.
„Það er ekki verið að fjalla um það hvort samþykkja eigi tillögur stjórnlagaráðsins og ég held að það þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því þó talað hafi verið um þetta stjórnlagafrumvarp,“ segir Guðbjörg, sem telur eðlilegt að það hafi verið rætt eins og annað.
Spurð segir hún að ekkert hafi bannað viðstöddum, t.a.m. fólki frá Stjórnarskrárfélaginu að ræða við fólk í hléum þegar það var frá borðum sínum.
„Fólk mátti alveg tala saman í hléinu, það var ekkert vandamál og hefur ekki áhrif á aðferðafræðina. Ég veit ekki hvað þeir frá Stjórnarskrárfélaginu töluðu við marga,“ segir Guðbjörg.
„Fólk hefur mismunandi skoðanir í þjóðfélaginu og ég held að það sé ekkert bjagandi við þetta,“ segir Guðbjörg.
Spurð hvort hverjum sem er hafi verið heimilt að dreifa áróðri á fundinum, til dæmis stjórnmálaflokkum, þá segir hún svo ekki vera. Hún telur nærveru félaga í Stjórnarskrárfélaginu þó ekki hafa haft áhrif.
„Þessi nærvera þeirra breytir engu um niðurstöðu fundarins,“ segir Guðbjörg, „þarna er verið að ræða rök með og á móti einstaka atriðum," segir hún.
Fundurinn var á vegum Félagsvísindstofnunar Íslands fyrir atbeina forsætisráðuneytisins og er ætlað að draga fram sjónarmið allra hópa í samfélaginu. Fram kom í niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var í aðdraganda fundarins að einungis 29% þátttakenda í henni vildu taka þátt í slíkum umræðufundi um stjórnarskrána á meðan 71% afþökkuðu það. Þá kom einnig fram í könnuninni að mun fleiri væru ánægðir með núgildandi stjórnarskrá en óánægðir.
Um 230 manns sóttu fundinn í gær og í dag og voru þeir valdir úr rúmlega 660 manna hópi sem sagðist hafa áhuga á því að taka þátt í umræðunum. Könnunin sem upphaflega var gerð náði til 2.095 manns.
Var hópurinn að mestu valinn úr hópi þeirra sem sögðust hafa áhuga á því að mæta á fundinn. Aukinheldur var haft samband við konur og ungt fólk úr könnuninni sem í fyrstu sögðust ekki hafa áhuga á málinu. Var það gert til að fá fulltrúa úr þeim hópum á fundinn, að sögn Guðbjargar.
„Við höfðum því samband við fleiri en þau 29% sem sögðust hafa áhuga til þess að reyna að láta úrtakið endurspegla þjóðina,“ segir Guðbjörg og bætir við að hlutfallslega hafi „aðeins fleiri“ þátttakendur verið af höfuðborgarsvæðinu en raunin hefði átt að vera.
Þátttakendum á fundinum eru greiddar 30 þúsund krónur fyrir þátttökuna. Eru það verktakagreiðslur sem greiddar eru af forsætisráðuneytinu.