Nám í jarðvinnu verði að veruleika

Vinnuveitendur í jarðvinnu fá eins og stendur ekki nægilega hæft …
Vinnuveitendur í jarðvinnu fá eins og stendur ekki nægilega hæft fólk til starfa og skortur á nýliðun er mikið áhyggjuefni í faginu. Tilgangur námsins er að stuðla að nýliðun í faginu og auka færni og þekkingu þeirra sem vinna eða munu vinna við jarðvinnu. mbl.is/Hallur Már

Formlegt nám á framhaldsskólastigi í jarðvinnu er markmið samstarfsyfirlýsingar sem Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Félag vinnuvélaeigenda og Tækniskólinn undirrituðu í dag. Verkefnið hefur hlotið fimm milljón króna styrk úr Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins. 

Í yfirlýsingunni segir að jarðvinna sé mikilvægur verkþáttur við alla uppbyggingu innan bygginga- og mannvirkjagerðar. Með auknum kröfum um öruggari vinnubrögð, aukin gæði, styttri framkvæmdatíma, minna rask, þéttingu byggðar og tækniþróun eykst sífellt þörfin fyrir vel menntað starfsfólk á þessu sviði. 

Þá er bent á að vinnuveitendur í jarðvinnu fá eins og stendur ekki nægilega hæft fólk til starfa og skortur á nýliðun er mikið áhyggjuefni í faginu. „Tilgangur námsins er að stuðla að nýliðun í faginu og auka færni og þekkingu þeirra sem vinna eða munu vinna við jarðvinnu meðal annars með tilliti til öryggis, gæða, skilvirkni og tækninýjunga. Um leið verður faginu gert hærra undir höfði til samræmis við það sem þekkist erlendis,“ segir í samstarfsyfirlýsingunni. 

Verkefninu er ætlað að skila tillögu að námi og námsfyrirkomulagi í jarðvinnu sem undirbýr nemendur undir margvísleg  störf við jarðvinnu en getur jafnframt verið grunnur frekara náms. Einnig verður leitast við að opna leiðir til náms fyrir þá sem þegar starfa innan greinarinnar m.a. í gegnum raunfærnimat.  

Stýrihópur  verður skipaður og samanstendur hann af  fulltrúum frá Samtökum iðnaðarins, Félagi vinnuvélaeigenda, Tækniskólanum og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.  Fulltrúar stýrihóps skuldbinda sig til að vera verkefnisstjóra, sem ráðinn er af Samtökum iðnaðarins, til stuðnings og vinna að framgöngu verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert