„Þessar myndir voru nú enginn glæpur, held ég,“ segir Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunar Norðurljósa um veggspjöld sem voru fjarlægð úr Háskóla Íslands. Myndirnar voru sagðar eiga að fagna 70 ára afmæli kínverska alþýðulýðveldisins og kínverskri menningu en voru fjarlægðar eftir kvartanir frá nemendum.
Nemandi við Háskóla Íslands sagði að þarna væri meðal annars verið að tala um hinn frábæra Maó og verið að draga upp jákvæða mynd af ríki sem safni múslimum saman í vinnubúðir og beiti mótmælendur í Hong Kong harðræði.
Konfúsíuarstofnun fékk leyfi til að setja veggspjöldin upp og Magnús segir að það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að fjarlægja þau eftir að kvartanir bárust. Hann segist geta tekið undir einhverjar kvartanir en segir það þó engan glæp að ríki reyni að setja upp jákvæða ímynd af sinni sögu.
Spurður hvort sýningin hafi verið sett upp á fölskum forsendum segir Magnús það af og frá „Þetta eru fyrst og fremst bara myndir. Vissulega er texti með sem gæti hafa stuðað einhverja. Það er ekkert óeðlilegt,“ segir Magnús.
Hann segir að ekkert hafi verið fjallað um átökin í Hong Kong á myndunum en nemendur gætu tengt þetta þeim, enda séu þau í fréttum nánast daglega. „Þetta átti að fjalla um sögu Kína og sérstaklega söguna eftir 1978.“
Magnús bætir því við að vissulega hafi ekki verið hægt að fjalla um allt í sögu Kína á myndunum og að ekki hafi verið um óháða sýningu að ræða.
Finnst þér eðlilegt að það sé sett upp myndasería þar sem ríki reynir að fegra ímynd sína?
„Við erum náttúrulega í Háskóla Íslands. Ef þetta er ekki boðskapur sem meiðir einhvern eða eitthvað slíkt þá finnst mér ekkert óeðlilegt að ólíkar skoðanir komi fram. Fólk í háskólasamfélaginu hlýtur að hafa þol fyrir ólíkum skoðunum þó það sé ekki sammála öllu sem er sett fram,“ segir Magnús og bætir við að hann sætti sig við að spjöldin hafi verið tekin niður:
„Ef hópi fólks líður illa yfir þessu er þetta tekið niður að sjálfsögðu. Mér finnst gagnrýnin samt farin að minna á skoðanakúgun eins og í Alþýðulýðveldinu sjálfu.“