Vill að eignir Samherja verði frystar

Helga Vala Helgadóttir kallar eftir því að eignir Samherja verði …
Helga Vala Helgadóttir kallar eftir því að eignir Samherja verði frystar og vill sömuleiðis að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stígi til hliðar á meðan héraðssaksóknari rannsakar málið. mbl.is/Hari

„Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur. Um er að ræða rannsókn á mögulegu mútubroti, peningaþvætti og skattalagabrotum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í færslu á Facebook.

Hún segir að hér sé ekki „um einhverja sjoppu að ræða heldur milljarðafyrirtæki með umtalsverð umsvif í fjölda ríkja og skattaskjólssvæðum“ og minnir á að eignir tónlistarmannanna sem skipa Sigur Rós voru frystar vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum þeirra.

Kristján Þór „stígi til hliðar“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Hari

Helga Vala segir að hún telji einnig „ekkert annað koma til greina“ en að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem var stjórnarformaður Samherja fyrir hartnær 20 árum, „stígi til hliðar“ meðan á rannsókn héraðssaksóknara á málinu stendur.

Í umfjöllun Stundarinnar um málefni Samherja í gærkvöldi kom fram að Kristján Þór hefði litið inn á fund í höfuðstöðvum Samherja í Borgartúni árið 2014, þar sem namibískir viðskiptafélagar fyrirtækisins voru staddir.

„Kristján Þór kom inn á fund­inn og Þor­steinn Már sagði bros­andi að þetta væri hans maður í rík­is­stjórn­inni. Hann stoppaði ekk­ert lengi samt, kannski í 10 mín­út­ur til að heilsa upp á Namib­íu­menn­ina,“ sagði Jó­hann­es Stefánsson, sem stigið hefur fram í fjölmiðlum og veitt yfirvöldum upplýsingar um meinta brotastarfsemi útgerðarfyrirtækisins, í samtali við Stundina.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert