Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í dag í ríkisstjórn aðgerðir sem unnið hefur verið að undanfarið með það að markmiði að koma í veg fyrir skattundanskot og tryggja virkt skattaeftirlit og eftirfylgni skattaframkvæmdar. Ennfremur skýrði ráðherra frá áformum um hert skattaeftirlit á næsta fjárlagaári, að því er segir í frétt á vef stjórnarráðsins.
Áformað er að auka fjárveitingu vegna skatteftirlits ríkisskattstjóra um 200 milljónir á næsta ári með það að markmiði að efla það varanlega. Áætlað er að þetta skili ríkissjóði 250 milljónum í tekjum umfram kostnað.
Í fréttinni segir að á síðasta áratug hafi stór skref verið stigin í íslenskri skattalöggjöf við að innleiða alþjóðlegar reglur sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir skattundanskot og skattasniðgöngu. Fram kemur að frumvarp til laga um nýjar CFC reglur (e. controlled foreign corporation), sem tekið hafi gildi árið 2010, séu nú til meðferðar á alþingi og endurspegli þær þróun sem átt hafi sér stað á vegum OECD á síðustu árum.
Þá er minnt á reglur um milliverðlagningu sem tekið hafi gildi árið 2014, reglur um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum frá 2017 sem eigi að auðvelda skattayfirvöldum að ákvarða skatta fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna og reglur um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda frá sama ári. Ennfremur hafi á árunum 2008-2015 verið gerðir 44 upplýsingaskiptasamningar við ríki sem skilgreind hafi verið sem lágskatta- eða bankaleyndarríki.
Í frétt ráðuneytisins segir að framlög til ríkisskattstjóra (RSK) og skattrannsóknastjóra (SRS) hafi aukist. Þau hafi, á verðlagi ársins í ár, numið 224 milljónum til SRS og 3.192 milljónum til RSK, á árinu 2010, en séu í ár 408 milljónir til SRS og 3.760 milljónir til RSK.