Umfangsmikil steypuvinna í grunni nýja Landsbankans við Austurbakka 2, við Hörpu, hófst í nótt hjá starfsmönnum ÞG-verktaka. Í botnplötu byggingarinnar fara um 1.500 rúmmetrar af steypu og í verkið verða notaðir 50 steypubílar frá BM Vallá, sem munu fara 190 ferðir í grunninn.
Vegna framkvæmdanna hefur verktakinn fengið heimild Reykjavíkurborgar til að loka hægri akgrein Kalkofnsvegar í átt að Lækjargötu. Einnig verður mynduð tvístefna á um 100 metra kafla við gatnamót Kalkofnsvegar og Geirsgötu. Til stóð að hefja steypuvinnuna klukkan fjögur í nótt og reiknað er með hún standi yfir til miðnættis í kvöld. Það er því vissara fyrir ökumenn að velja sér aðrar leiðir um miðbæinn.