Ekkert samráð var haft við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu þegar Reykjavíkurborg ákvað að ráðast í breytingar á Hagatorgi í Vesturbæ Reykjavíkur.
Til margra ára hefur sú venja verið uppi að leita ráða hjá lögreglu þegar ráðast skal í stærri breytingar sem snúa að umferðarmálum og -mannvirkjum. Þetta staðfestir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Hringtorgið Hagatorg hefur mjög verið til umræðu að undanförnu og hefur Strætó m.a. lokað biðskýli þar svo vagnstjórar gerðust ekki brotlegir við lög, en að stöðva ökutæki á hringtorgi er, samkvæmt umferðarlögum, ekki heimilt. Reykjavíkurborg hefur þrengt mjög að umferð ökutækja um torgið í þeim tilgangi að hægja á umferð ökutækja. Hefur því verið haldið fram að hraðakstur sé stundaður á torginu.
Spurður í Morgunblaðinu í dag hvort Hagatorg sé þekkt sem slysa- eða hraðaksturssvæði kveður Guðbrandur nei við. „Nei, þetta er ekki hraðaksturssvæði. Þarna er í gildi 30 km hámarkshraði,“ segir hann.