„Seinasta sem ég man var að ég var að keyra og sá í Reykjavík í fyrsta sinn. Síðan vakna ég á spítalanum daginn eftir.“
Þannig lýsir Aron Sigurvinsson síðasta augnablikinu áður en hann lenti í alvarlegu bílslysi á móts við Rauðhóla um verslunarmannahelgina. Aron slasaðist alvarlega, tvíhálsbrotnaði og fékk miklar innvortis blæðingar. Í aðgerð sem hann gekkst undir skömmu eftir slysið kom hins vegar annað og meira í ljós. Hann var með krabbamein í hálsi og á lungnasvæði.
Aron var að keyra frá Landeyjarhöfn mánudagsmorguninn 5. ágúst síðastliðinn, á frídegi verslunarmanna, eftir viðburðarríka og skemmtilega helgi á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum með góðum vinum. „Ég byrjaði að keyra heim og það er ekkert mikið meira um það að segja nema að það seinasta sem ég sá var Reykjavík. Síðan bara man ég ekkert,“ segir Aron.
Hann var einn á ferð og hafnaði bíll hans framan á öðrum bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Ekki liggur fyrir hvað gerðist í aðdraganda slyssins. Hjón voru í hinum bílnum og slösuðust þau mikið, þó ekki lífshættulega. Aron og fjölskylda hans hafa verið í sambandi við hjónin, en konan er enn í endurhæfingu. „Þeim gengur ágætlega og hafa spurt um mig og hvernig mér líður.“
Aðspurður hvort slysið hafi rifjast upp fyrir honum eftir því sem tíminn líður segir Aron svo ekki vera. „Sem betur fer. Ég held að ég vilji ekki muna eftir þessu.“ Aron var með og án meðvitundar til skiptis fyrstu dagana eftir slysið og man lítið eftir því sem gerðist fyrstu tíu dagana, en þann tíma var hann á gjörgæslu.
„Ég vissi ekki hvað var í gangi fyrst. Ég hafði ekki hugmynd hvað gerðist. Ég man að ég vaknaði á spítalanum og var allur út í túbum og leiðslum og gat ekki hreyft mig. Ég vissi ekkert af hverju. Ég man að mamma kom upp að mér og sagði: „Aron minn, þú lentir í slysi,“ og ég heyrði það en ég skildi það ekki. Ég fattaði ekki alveg að ég hafði lent í slysi. Mér fannst þetta svo óraunverulegt eitthvað.“
Foreldrar Arons og systir vöktu yfir honum á gjörgæslunni, auk þess sem vinur hans flaug heim frá Noregi. „Það var mjög fallegt, ég á mjög góða að, sem betur fer.“
Eftir því sem dagarnir liðu fór Aron að gera sér grein fyrir því sem gerst hafði. „Það var mjög erfitt, ég fann meira fyrir verkjunum og þetta var andlegt áfall. Ég var mjög meðvitaður um áverkana og fattaði að ég gat ekki hreyft mig. Ég fattaði að ég þurfti að læra að labba upp á nýtt.“
Við slysið brotnaði Aron á tveimur stöðum í hálsi og lamaðist vinstra megin í líkamanum. „Þetta kallast máttminnkun og varir í nokkrar vikur. Ég gat ekki hreyft hendurnar eða fæturna í nokkrar vikur. Ég gat ekki gert neitt, ég gat ekki farið á klósettið. Ég var pikkfastur. Læknirinn sagði að við svona brot eru 90-95 prósent líkur á að lamast varanlega eða deyja. Þetta er það sem mamma og pabbi fengu að vita. Sem betur fer gerðist það ekki. Læknirinn sagði að ég væri eini maðurinn sem hefur lifað af tvö hálsbrot hér á landi, að minnsta kosti svo hann vissi.“
Hálsbrotið var þó ekki það eina sem stofnaði lífi Arons í hættu. Þegar tekið var á móti honum á spítalanum kom fljótt í ljós að innvortis áverkar voru miklir og fór hann beinustu leið í aðgerð. „Þarmarnir höfðu rifnað í fernt og ristillinn á þremur stöðum. Svo var fjórðungur af görnunum tekinn. Og það var það hættulegasta. Þegar ég fór í aðgerðina voru skilaboðin til mömmu og pabba að ég gæti mögulega ekki lifað hana af.“
Mamma Arons er flugfreyja og var hún stödd í Bandaríkjunum við vinnu þegar hún fékk fregnir af því að sonur hennar hafi lent í alvarlegu bílslysi. Hún tók fyrsta flug heim enda var áfallið mikið. „Hún fékk símtal þar sem henni var sagt að ég væri að fara í aðgerð þar sem ég myndi annað hvort lamast eða deyja.“
Aðgerðin gekk hins vegar mjög vel og eftir tíu daga á gjörgæslunni var fullvíst að Aron hefði ekki hlotið mænuskaða. Það voru að sjálfsögðu mikil gleðitíðindi en ljóst var að fram undan var mikil þrautaganga. Viku eftir aðgerðina fékk Aron alvarlega sýkingu í kviðarholi og háir það honum enn þann dag í dag.
Af gjörgæslu fór Aron á á bæklunardeild Landspítalans þar sem hann dvaldi í fimm vikur áður en endurhæfing hófst á Grensásdeild Landspítalans um miðjan september.
Aron segir dvölina á bæklunardeildinni hafa verið erfiða, ekki síst andlega. „Það er erfitt að segja frá því af því að á þessum tíma var ég enn þá mjög lyfjaður og var ekki með fulla meðvitund. En síðustu tvær vikurnar byrjaði ég að átta mig á aðstæðum og þá fór mér að líða verr.“
Þegar Aron hóf svo endurhæfingu á Grensásdeildinni varð líðanin betri. „Það var búið að vera mikið stress og álag en við vorum bjartsýn og erum búin að vera það í öllu ferlinu, það er nauðsynlegt. Við vorum glöð að geta loksins tekið næsta skref og komast í endurhæfingu, þá gat ég gert það sem ég er vanur að gera — að æfa.“
Æfingarnar voru þó ansi frábrugðnar þeim æfingum sem Aron er vanur að stunda sem þaulvanur knattspyrnumaður. „Loksins hafði ég eitthvað til að elta. Áður lá ég bara á spítalanum og vissi ekkert hvað var að gerast, það var svo mikil óvissa. Grensás er líka heimilislegra, þar er ekkert áreiti. Það var rosalega þægilegt að komast í afslappaðra umhverfi, maður var kominn með langtíma streitu á að vera vakinn alltaf á nóttinni til að mæla mann og taka blóðprufur. Ég var kominn með langtíma kvíða fyrir öllu. Það lagaðist aðeins við það að komast í þægilegra umhverfi.“
Að ná líkamlegum bata er verðugt verkefni en skömmu eftir slysið varð ljóst að Arons bíður enn verðugara verkefni. Viku eftir slysið fór Aron í myndatöku á hálsi til að kanna hvort liðbönd hefðu slitnað við hálsbrotin. Það reyndist ekki vera en læknarnir tóku eftir stórum eitli sem þeir vildu láta kanna frekar. Sýni var tekið og tveimur vikum seinna, þremur vikum eftir slysið, kom í ljós að Aron er með eitilfrumukrabbamein, svokallað Hodgkin's, sem leggst einna helst á ungt fólk en meðalaldur við greiningu er um 40 ár.
Foreldrar Arons fengu fréttirnar fyrst og töldu þau Aron ekki vera í nógu góðu ásigkomulagi til að fá fregnirnar. „Þau biðu í held ég viku, sem var bara fínt. Ég var bara að hugsa um slysið, en ég man að þau komu öll inn til mín, læknirinn og fjölskyldan, og hópuðust í kringum mig og ég hugsaði: „Þetta getur ekki verið gott“. Síðan sagði læknirinn mér þetta. Þetta var sjokk, ég sagði ekki orð í tíu mínútur, ég starði bara út í loftið. En á sama tíma fattaði ég þetta ekki. Ég heyrði þetta en áttaði mig ekki á þessu. Ég pældi eiginlega ekkert í þessu fyrstu tvær vikurnar.“
Aron segir upplifunina að greinast með krabbameinið í raun svolítið líka þeirri þegar honum var sagt frá slysinu. „Þetta var svo óraunverulegt,“ segir Aron og lýsir því hvernig honum fannst óhugsandi að lenda bæði í bílslysi og greinast með krabbamein. Það rann ekki almennilega upp fyrir honum að hann væri með krabbameini fyrr en endurhæfingin eftir bílslysið hófst á Grensás. „Ég man fyrst þegar ég fékk tilfinningu að ég væri með krabbamein, þegar ég fékk kvíða og stress.“
Eitt lítið sms frá Landspítalanum varð kveikjan að kvíðanum. Í sms-inu var verið að minna Aron á bókaðan tíma sem hann átti hjá krabbameinslækni. „Ég man þessa tilfinningu svo sterkt. Allt í einu fékk ég stress og kvíða yfir allan líkamann. Og ég hringdi strax í mömmu.“ Þetta var einum og hálfum mánuði eftir slysið. „En þetta var í fyrsta sinn sem ég áttaði mig á því að ég væri með krabbamein.“
Aron hefur náð undraverðum bata líkamlega eftir slysið. Strax á bæklunardeildinni náði hann að stíga í fæturna á ný. En hvernig var tilfinningin að ganga á ný?
„Hún var ekki góð ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Í raun gat ég ekki labbað, ég var með göngugrind og með stuðning. Þetta tók rosalega á og ég rotaðist eftir á því þetta tók svo á. Tilfinningin var skrýtin af því að þá áttaði ég mig á því að ég þurfti að læra að labba upp á nýtt.“
Aron er vanur því að æfa mikið og stíft og keppnisskapið gat komið honum í koll í endurhæfingunni. „Sjúkraþjálfararnir hafa verið í fullri vinnu við að stoppa mig af,“ segir hann og hlær. „En það hjálpaði mér samt mjög mikið því ég vil alltaf ýta mér meira og meira áfram og ég vil meina að það sé ástæðan fyrir því að ég er komin þangað sem ég er kominn í dag.“
Undirbúningur fyrir krabbameinsmeðferðina er hafinn en Aron þarf að fara í aðgerð þar sem lyfjabrunni verður komið fyrir. Meðferðin sjálf gæti hafist í næstu viku ef allt gengur að óskum. Hægt er að meðhöndla krabbameinið með góðum árangri og hátt hlutfall þeirra sem greinast með sjúkdóminn læknast alveg. „Ég er með góða líkur og þetta er bara eitt stórt verkefni, eins og endurhæfingin eftir bílslysið.“
En ljóst er að allt breyttist þennan örlagaríka dag, frídag verslunarmanna. Aron útskrifaðist úr framhaldsskóla í fyrra og ætlaði sér að hefja nám í lögfræði við Háskóla Íslands í haust. Aron er hins vegar pollrólegur og ætlar að einbeita sér að ná fullum styrk áður en ný verkefni taka við.
„Líkamlegi batinn gengur rosalega vel,“ segir Aron, en óljóst er hvaða áhrif krabbameinsmeðferðin mun hafa. „Hún gæti hindrað batann en aftur á móti þá lít ég bjartsýnum augum á næstu vikur. Ég stefni að því að vera þokkalega sjálfbjarga um jólin, að geta gert það sem ég vil, hitta vinina og vera partur af samfélaginu aftur.“
Aron hefur þurft að finna upp á ýmsu til að stytta sér stundir síðustu vikur og þar komu sjónvarpþættirnir Friends sterkir inn. „Ég horfði á Friends. Ég gat ekkert gert. Blóðgildin voru svo lág eftir allar innvortis blæðingarnar. Ég var búinn á því eftir allt, til dæmis eftir að hafa talað við lækni.“
Bólgur í heila ollu tvísýni hjá Aroni eftir slysið þannig að hann hélt iPad mjög nálægt augunum til að horfa á Friends og stytta sér þannig stundir. Bólgurnar eru fyrst núna að ganga til baka.
Aron útskrifaðist af göngudeild Grensásdeildar í síðustu viku en sækir nú endurhæfingu á dagdeildinni alla virka daga. „Ég er þar til klukkan þrjú á daginn og fer svo heim að horfa á Friends. Það er svolítið lífið mitt, ég er að byrja á öðrum hring núna,“ segir Aron, sem verður að teljast nokkuð gott þar sem þáttaraðirnar eru tíu og þættirnir 236 talsins. „Fimmta sería er í uppáhaldi, það er mjög góð sería,“ segir Aron og hlær.
Þegar fram líða stundir sér Aron fyrir sér að minnka Friends-áhorfið og fara í lögfræði. „En ég er ekki kominn mikið lengra, ég er meira að einbeita mér að endurhæfingunni. Svo fer það eftir hvernig líkaminn er í sambandi við fótboltann.“
Aron hefur notið mikils og góðs stuðning frá fjölskyldu og vinum síðustu vikur og mánuði. „Ég er eiginlega enn þá bara orðlaus, maður gerir sér ekki grein fyrir því hversu góða maður á að fyrr en maður lendir í þessu.“
Fótbolti hefur verið stór hluti af lífi Arons nær alla tíð. Hann er Fylkismaður, en hann lék með Árbæjarliðinu í 2. flokki og spilaði síðan fyrir Elliða, varalið Fylkis, árið 2017 áður en hann hélt austur á land og lék bæði fyrir Fjarðabyggð og Hugin í 2. deildinni í fyrra. Í sumar lék hann svo einn leik fyrir sameinað lið Hattar og Hugins í 3. deildinni. Elliðamenn í samstarfi við Fylki stóðu að styrktarleik fyrir Aron og fjölskyldu í sumar.
„Leikmenn, þjálfarar og vinir hafa stutt mig og sent mér hlý skilaboð. Ég hef fengið heimsóknir frá fyrrum þjálfurum og þau hafa stutt mig rosalega vel.“ Stuðningurinn nær út fyrir félagsliðið en landsliðsmennirnir Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason heimsóttu Aron á Grensásdeildina fyrir nokkrum vikum.
„Það var rosalega upplífgandi að hitta þá og spjalla við þá. Þeir eru algjörar fyrirmyndir. Ég man að þennan dag var ég í niðursveiflu, mér leið ekki vel, en þegar ég hitti þá breyttist dagurinn og mér leið vel út vikuna. Þetta hjálpaði gríðarlega.“
Fleiri frægðarmenni hafa stutt Aron í bataferlinu. Sólmundur Hólm Sólmundarson uppistandari fékk sér kaffibolla með Aroni, en hann greindist sjálfur með Hodgkin's fyrir nokkrum árum, á sama stigi og Aron. „Það var rosalega þægilegt að tala við hann og það létti mér lundina og minnkaði kvíðann, hann sagði mér hverju ég má búast við og það hjálpaði mér.“
Aron hafði ekki fundið fyrir kvíða eða stressi áður en hann lenti í slysinu, að minnsta kosti ekki með þeim hætti að það hafi háð honum. Um leið og hann fann fyrir einkennunum eftir bílslysið fannst honum mikilvægt að tala opinskátt um líðanina. „Mér finnst að allir eigi að tala um vandamálin sín því það hjálpar gríðarlega,“ segir hann. Sjálfur hefur Aron rætt við sálfræðing og sjúkrahúsprest í sínu bataferli. „Það hefur hjálpað mér gríðarlega mikið og ég mæli með því fyrir alla að sækja sér aðstoð sem þurfa á henni að halda.“
Í bataferlinu hefur Aron tileinkað sér að einbeita sér að einu verkefni í einu. 104 dagar eru frá slysinu og í síðustu viku losnaði Aron við hálskraga og annan stuðning sem hann hefur þurft að notast við í 14. vikur. Þó fullum líkamlegum bata sé ekki náð mun einbeiting Arons snúa meira að krabbameinsmeðferðinni næstu vikur.
„Ég hugsaði eiginlega ekkert út í krabbameinið þegar ég var enn þá á erfiðu stigi upp á spítala, ég ákvað að hugsa bara um endurhæfinguna á líkamanum og svo kemur hitt. Það hjálpar mér ekkert að hugsa um bæði í einu,“ segir hann.
Hann viðurkennir að auðvitað hefði hann viljað uppgötva krabbameinið á annan hátt en að lenda í bílslysi. „En að sama skapi er ég þakklátur fyrir bæði það að hafa lifað af og að þetta hafi fundist, því ég var ekki á leiðinni í krabbameinsskoðun á næstunni. Þetta er lán í óláni. Ég vil hugsa það þannig að bílslysið bjargaði mér.“