Þingflokkur Pírata hefur lýst yfir „djúpum vonbrigðum“ með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við Samherjamálinu og segir litla innistæðu fyrir yfirlýsingum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að skapa traust á stjórnmálum, sökum þess að Kristján Þór Júlísson hafi setið fund ríkisstjórnarinnar þar sem tekin var ákvörðun um viðbrögð við Samherjamálinu.
„Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafa ítrekað lýst því yfir að Kristján Þór Júlíusson segði sig frá öllum málum tengdum Samherja. Þingflokkur Pírata gefur lítið fyrir tæknilega útúrsnúninga forsætisráðherra um að Kristján Þór hafi einungis sagt sig frá stjórnvaldsákvörðunum sem varða Samherja einan. Vera hans á fundi ríkisstjórnarinnar og þátttaka í ákvörðunum um Samherja lýsir í besta falli skilningsleysi á afleiðingum þess að segja sig frá málum og í versta falli algjöru skeytingarleysi um sannleikann,“ segir í yfirlýsingu þingflokks Pírata.
Þingflokkurinn fer sérstaklega fram á það í yfirlýsingu sinni að sjávarútvegsráðherra upplýsi um alla fundi sem hann hefur setið með forsvarsmönnum Samherja frá því að hann tók við embætti sínu, efni þeirra og fundargerðir ef þeim er að skipta.
Yfirlýsing Pírata í heild sinni:
Þingflokkur Pírata lýsir yfir djúpum vonbrigðum með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við Samherjamálinu. Ekki stendur til að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem verndað getur almenning frá álíka auðlindaráni og namibíska þjóðin upplifir af hálfu Samherja. Eins stendur ekki til að endurskoða þau ákvæði laga um veiðigjöld um aðskilnað veiða og vinnslu sem gera útgerðarrisum eins og Samherja kleift að nota bókhaldsbrellur til þess að komast hjá því að greiða sanngjarnan arð af auðlindum þjóðarinnar. Í stað þess að ráðast í raunverulegar kerfisbreytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu til þess að sporna gegn spillingu og misnotkun einkennast viðbrögð ríkisstjórnarinnar af skammsýni og plástrapólitík.
Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið virðist ríkisstjórnin ætla að beita sömu aðferðum og notaðar hafa verið til þess að klóra yfir flest undanfarin spillingarmál: Minni háttar útvatnaðar aðgerðir sem koma til framkvæmda á óskilgreindum tíma í bland við fegrunaraðgerðir á erlendri grundu til að gæta þess að íslensk spilling skemmi orðspor Íslands ekki um of.
Sú staðreynd að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi setið fund ríkisstjórnarinnar þar sem tekin var ákvörðun um viðbrögð við Samherjamálinu sýnir hversu lítil innistæða er fyrir yfirlýsingum forsætisráðherra um að skapa traust á stjórnmálum. Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafa ítrekað lýst því yfir að Kristján Þór Júlíusson segði sig frá öllum málum tengdum Samherja. Þingflokkur Pírata gefur lítið fyrir tæknilega útúrsnúninga forsætisráðherra um að Kristján Þór hafi einungis sagt sig frá stjórnvaldsákvörðunum sem varða Samherja einan. Vera hans á fundi ríkisstjórnarinnar og þátttaka í ákvörðunum um Samherja lýsir í besta falli skilningsleysi á afleiðingum þess að segja sig frá málum og í versta falli algjöru skeytingarleysi um sannleikann.
Þingflokkur Pírata telur mikilvægt að ríkisstjórnin geri gangskör í að tryggja aðgengi fjölmiðla og almennings að upplýsingum um endanlega eigendur fyrirtækja og um íslenska aðila sem eiga eignir erlendis. Sömuleiðis þarf að efla aðgengi almennings og fjölmiðla að fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og hlutahafaskrá. Þá þarf að koma á öflugu virku eftirliti með fjármagnsflutningum og víkka út skilgreininguna á lágkattaríkjum og birta leiðbeinandi lista um slík ríki auk þess að kveða á um tilkynningarskyldu til skattayfirvalda um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríkjum. Þá þarf aukning á fjármagni til eftirlits- og rannsóknaraðila að vera varanleg fremur en tímabundin eins og gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar svo viðhalda megi virkum vörnum gegn efnahagsbrotum á Íslandi almennt. Þá ætti ríkisstjórnin að gefa fyrirheit um lögfestingu afhjúpaverndar en að gildissvið ákvæðisins verði útvíkkað þannig að það nái m.a. til fyrrverandi starfsmanna og að verndin gildi afturvirkt.
Þá er ekki í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar að finna neinar aðgerðir til að bregðast við þeim möguleika að fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hafi verið misnotuð af Samherja og stjórnendum hans. Þingflokkur Pírata bendir á þingsályktunartillögu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og allra þingmanna Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar um að Alþingi skipi rannsóknarnefnd sem fari ofan í kjölinn á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands til þess að meta hvort hún hafi verið misnotuð til þess að þvætta illa fengið fé. Æskilegt hefði verið að ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við þá tillögu.
Loks kallar þingflokkur Pírata eftir því að sjávarútvegsráðherra upplýsi um alla fundi sem hann hefur setið með forsvarsmönnum Samherja frá því að hann tók við embætti sínu, efni þeirra og fundargerðir ef þeim er að skipta.