„Þetta er varnarbarátta. Það verður ábyggilega erfitt fyrir marga ef það rætist ekki úr þessu. Það er alveg deginum ljósara,“ segir Kristófer Oliversson, formaður FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, en tilefnið er lækkað verð á gistingu.
Samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs er verð á gistingu nú svipað í krónum og árið 2017. Að auki hefur gengisvísitalan lækkað um 12% frá nóvember 2017.
Benda þessar tölur til að verð hafi lækkað töluvert í erlendri mynt. Á vef Expediu var auðvelt að finna gistingu á 5-6 þúsund nóttina. Hóteleigandi sagði að þótt staðan væri erfið væri útlitið bjart í vor.
„Við finnum fyrir samkeppni. Verð hefur lækkað og það er slegist um ferðamennina,“ sagði hann. Þá sagði sérfræðingur að tilfærsla hefði orðið á markaðnum frá heimagistingu til hótela. Vísbendingar væru um að verð hjá stærstu hótelum hefði staðið í stað milli ára, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.