Óverjandi framferði

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ýmsar sögur eru til af erlendum stórrisum, sem hösluðu sér völl á nýjum stað og fóru offari, léku innfædda grátt, með blekkingum, svikum og mútum. Þannig framferði er auðvitað óverjandi.“

Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er hann ávarpaði starfsfólk álversins í Straumsvík á föstudaginn og átti þar væntanlega við Samherjamálið. Hann sagði engum til góðs að skapa falsmynd eða þegja þunnu hljóði þegar óréttlæti og grályndi blasir við.

„Við Íslendingar verðum að geta borið höfuðið hátt í útlöndum, ekki síst við sem höfum notið trausts til trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð,“ sagði hann, að því er kemur fram á Facebook-síðu hans.

„Lengi höfum við stært okkur af forystuhlutverki til sjávar, þekkingu okkar og reynslu og vilja til að vinna með öðrum, öllum til hagsbóta. Þetta hef ég gert nýlega, svo dæmi séu tekin, í heimsóknum ytra og þegar ég tók á móti nýjum sendiherra Namibíu eins og lesa má í frétt á heimasíðu embættisins: „Loks var rætt um fiskveiðar undan ströndum Namibíu og framtíðarhorfur þar í þágu heimamanna“, og var þá vísað til þróunarsamvinnu þar ytra.“

Hann bætti við að af þeir sem koma fram í þágu Íslands eigi að geta lofað frumkvæði og dugnaði í útvegi og öðrum greinum íslensks atvinnulífs verði að sjást í verki að unnið sé af heilindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert