Líneik Anna Sævarsdóttur, þingmaður Framsóknarflokks og varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir að kynning sem nefndarmenn fengu á nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Ríkisútvarpinu í morgun hafi verið mjög gagnleg og skýrt margt.
Hún segir í samtali við mbl.is að í máli fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins hafi komið skýrt fram að menntamálaráðherra hafi haft það á sínum verkefnalista á stofna dótturfélag fyrir samkeppnisstarfsemi RÚV ohf., eins og kom fram í niðurstöðum skýrslunnar að RÚV bæri að gera lögum samkvæmt.
Líneik segir að á fundi nefndarinnar í morgun hafi einnig verið rætt um þær miklu skuldir sem Ríkisútvarpið ohf. „fór af stað með“ er opinbera hlutafélagið var stofnað árið 2007, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar er það sagt „umhugsunarvert“ að félaginu hafi verið „gert að hefja starfsemi með vitneskju um yfirvofandi fjármagnsþörf án viðbragða og fyrirvara um sérstaka eftirfylgni með fjárhag félagsins af hálfu eiganda.“
Endanlegur stofnefnahagsreikningur Ríkisútvarpsins ohf. gerði þannig ráð fyrir því að tekjur félagsins myndu ekki duga til að standa undir rekstri, fjárfestingum og afborgunum langtímalána. „Ekki var brugðist við ábendingum um að félagið stefndi í greiðsluvandræði miðað við þær áætlanir sem lagðar voru til grundvallar við stofnun félagsins,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
„Mér þætti ekkert ólíklegt að það yrði einhver umræða um það í framhaldinu,“ segir Líneik.