Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 18,1% samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR og hefur fylgi flokksins ekki mælst lægra í könnunum fyrirtækisins. Lægst hafði fylgið áður farið í 18,3% í september. Fylgið fór upp í 21,1% í október og hefur því lækkað um þrjú prósentustig á milli mánaða. Flokkurinn mælist þó áfram með mest fylgi.
Miðflokkurinn mælist með næstmest fylgi eða 16,8% og hefur fylgi flokksins ekki áður mælst svo mikið í könnunum MMR. Eykst fylgi flokksins um 3,3% á milli mánaða. Má gera ráð fyrir að fylgisaukning Miðflokksins sé einkum á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Einungis munar 1,3 prósentustigum á flokkunum sem er innan vikmarka könnunarinnar.
Samfylkingin er í þriðja sæti með 13,2% og minnkar fylgi flokksins um rúm tvö prósentustig frá síðustu könnun MMR. Þá var Samfylkingin annar stærsti flokkurinn. Píratar koma næstir og bæta við sig um tveimur prósentustigum. Vinstri hreyfingin — grænt framboð mælist með 10,6% fylgi og bætir við sig um einu prósentustigi.
Viðreisn mælist með 9,7% fylgi sem er svipað og í síðasta mánuði og hliðstæða sögu er að segja af Framsóknarflokknum en hann er með 9,4%. Fylgi Flokks fólksins mælist 6,3% miðað við 8% síðast og Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 3%.
Fylgi við ríkisstjórnina er 41,5% samkvæmt könnuninni.