„Við fáum á hverju kjörtímabili á milli 60-70 skoðanakannanir. Þær geta verið allavega. Þetta er ekki góð könnun. Ég fékk aðra könnun fyrir hálfum mánuði sem var miklu betri.“
Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR sem mælir flokkinn með 18,1% sem er minnsta fylgi sem fyrirtækið hefur mælt flokkinn með.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist áður lægst í könnun MMR í september eða 18,3% en hefur nú náð nýjum lægðum. Flokkurinn tapar þremur prósentustigum frá síðasta mánuði og virðist fylgið fara beint yfir á Miðflokkinn sem mælist með 16,8% og bætir við sig álíka fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn tapar eða 3,3 prósentustigum.
Miðflokkurinn hefur ekki áður mælst með jafn mikið fylgi samkvæmt könnunum MMR og munar einungis 1,3 prósentustigum á flokknum tveimur sem er innan vikmarka könnunarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn mælist þó stærsti flokkurinn og er Miðflokkurinn næst stærstur.
Bjarni segir aðspurður að það sé að sjálfsögðu rétt að spyrja að leikslokum.