Tæplega 30 endur verða aflífaðar á Fáskrúðsfirði á þriðjudaginn ef eigandi þeirra verður ekki búinn að útbúa einhvers konar húsnæði fyrir þær. Starfsfólk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar hefur áhyggjur af því að öndunum verði ískalt í vetur.
Óðinn Magnason, sem rekur kaffihús í bænum og kveðst vera mikill andavinur, segir við mbl.is að það sé í raun og veru verið að drepa dýrin til að koma í veg fyrir að þau drepist í vetur.
„Ég fylgist með traffíkinni hérna og bara í dag hafa um það bil 30 manns komið til að gefa öndunum,“ segir Óðinn. Hann bætir við að fuglarnir séu vinsælir; ferðamenn og krakkar í bænum gefi þeim matarafganga.
Hann bendir á að kunningi hans hafi fengið leyfi fyrir öndunum fyrir fjórum árum síðan. Núna hafi umhverfisstjóri Fjarðabyggðar hins vegar ákveðið að fuglirnir skuli verða aflífaðir ef ekki verði gerðar úrbætur á þeirra samastað fyrir 26. nóvember en þær hafast meðal annars við í fjörunni á Fáskrúðsfirði.
„Ef hann gerir það ekki sjálfur gerir bæjarfélagið það á hans kostnað,“ segir Óðinn og heldur áfram:
„Útskýringin er sú að fuglarnir gætu dáið úr kulda vegna þess að um sé að ræða húsdýr, sem hafa þó aldrei komið inn í hús.“
Óðinn birti fyrr í dag myndskeið á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má girðingar sem settar hafa verið upp í fjörunni. Hann segir að þangað ætli eigandinn að lokka endurnar þar sem þær verða svo aflífaðar.
„Hann gerir þetta sjálfur frekar en að verða sendur reikningurinn,“ segir Óðinn og bætir við að það sé óraunhæft að byggja eitthvað fyrir fuglana:
„Hann gæti byggt stórt hús fyrir fuglana en við vitum hvernig það er. Slíkt kostar stórfé og það þarf leyfi fyrir því og fleira. Hver ætlar að hleypa þeim út og inn, á að vera dyravörður?“
Spurður hvers vegna bæjarstarfsmenn hafi áhyggjur af því núna að fuglarnir lifi ekki veturinn af segist Óðinn halda að umhverfisstjórinn sé að reyna að finna sér einhver verkefni.
„Ég er að reyna að opna umræðuna og athuga hvort það sé ekki hægt að koma í veg fyrir þetta. Við höfum nokkra daga.“
Samkvæmt samþykkt um fiðurfé í Fjarðabyggð utan skipulagðra landbúnaðarsvæða sem staðfest var í janúar á þessu ári segir að á lóðum þar sem veitt er leyfi til þess að vera með fiðurfé þurfi að vera hæfilega stór kofi sem rúmi þann fjölda af fuglum sem leyfi er veitt fyrir.
Umhverfisstjóri Fjarðabyggðar segist hafa haft samband við eiganda fuglanna með það að sjónarmiði að gerðar yrðu úrbætur á aðbúnaði dýranna og vísaði í samþykktir sveitarfélagsins.