Kaupmáttur aukist mikið þrátt fyrir minni hækkun launa

Vísitala launa hækkaði um 0,54% á milli september og október samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands en síðustu tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,2%. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir enn fremur að frá því í júní hafi ársbreyting launavísitölunnar verið föst í 4,2-4,3% og hafi ekki verið svo lítil frá því í byrjun árs 2011. Síðustu ár hafi vísitalan fyrst og fremst hækkað mikið þá mánuði þegar áfangahækkanir vegna kjarasamninga hafa komið til. Hins vegar hafi talsvert dregið úr þeim síðustu ár.

Þá segir að kaupmáttur launa hafi hins vegar aukist mikið þrátt fyrir að hækkunartaktur launa hafi lækkað og þannig verið rúmlega 17% meiri í október en í árslok 2015. Frá byrjun árs 2015 hafi kaupmáttur launa aukist um rúm 26%.

Að lokum segir að ekki sjáist merki launaskriðs eins og staðan sé í dag sem oft hafi gerst í sögunni. Útlit sé fyrir að markmið lífskjarasamninganna haldist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert