Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að taka upp auðlindaákvæði, þegar það er búið að vera í samráðsgáttinni, með það í hyggju að tímabinda aðgang að auðlindinni sem fiskimiðin eru og að sanngjarnt eðlilegt gjald komi inn í auðlindaákvæðið.
„Það er áhugavert sem kom fram í máli formanns Framsóknarflokksins um síðustu helgi um auðlindir landsins. Hann talaði mjög skýrt og sagði að það hefði ekki verið tilgangur fiskveiðistjórnarkerfisins að gera örfáa ofurríka. Ég held að öllum sé ljóst að það er hluti af því vandamáli og viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir í dag,“ sagði Þorgerður Katrín á þingi í morgun.
Þorgerður Katrín sagði enn fremur að það þyrfti að tímabinda samninga til að tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar, ekki útgerðarinnar heldur þjóðarinnar, á auðlindum sínum og síðan þyrfti að koma sanngjarnt og réttlátt gjald fyrir aðgang að okkar auðlind.
Katrín sagði að auðlindaákvæðið hefði verið í samráðsferli og enn væri verið að vinna úr þeim athugasemdum sem bárust. „Í því ákvæði sem fór inn í samráðsgáttina, sem var að sjálfsögðu rætt í hópi formanna flokkanna áður en það fór þangað, kemur fram að enginn geti fengið náttúruauðlindir Íslands til eignar eða varanlegra afnota,“ sagði forsætisráðherra.
„Ég lít svo á og er sammála formanni Framsóknarflokksins og ég tel að við séum nú flest sammála um það að auðlindir okkar í þjóðareign verða engum afhentar til eignar eða varanlegra afnota. Það ákvæði sem við settum í samráðsgáttina feli það í sér með mjög skýrum og afgerandi hætti. Þar er einnig kveðið á um gjaldtöku,“ bætti Katrín við.
Hún sagði að það skipti máli að alvöruskref verði stigin á kjörtímabilinu varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem byggt væri á vinnu sem hefði verið unnin.
Þorgerður Katrín sagði að það lægi ljóst fyrir að sérfræðingar væru ekki endilega sammála nálgun forsætisráðherra um að það sé algjörlega óvefengjanlegt að það sé búið að tryggja tímabundið aðgang að auðlindinni þegar kemur að útgerðunum.
„Ef þetta er skilningur forsætisráðherra, af hverju eigum við þá ekki til öryggis að setja þetta skýrt fram í stjórnarskrá?“ spurði Þorgerður Katrín og hélt áfram:
„Hvort er að mati forsætisráðherra mikilvægara að tryggja rétt þjóðarinnar til að ráða raunverulega yfir auðlindum sínum og fá fyrir það eðlilegt gjald og tryggja það í stjórnarskrá eða er kannski mikilvægara fyrir forsætisráðherra að halda ríkisstjórninni saman og hafa Sjálfstæðisflokkinn góðan?“