Frumvarp opnar á Uber og Lyft

Áformað er að rýmka heimildir til leigubílaaksturs og heimila meiri …
Áformað er að rýmka heimildir til leigubílaaksturs og heimila meiri fjölbreytileika í framboði á þjónustu. mbl.is/​Hari

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur sem hefur það að markmiði að „tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi,“ eins og segir í frumvarpinu. Frumvarpið er ekki síst tilkomið vegna þess að litið er svo á að núgildandi reglur séu ekki í fullu samræmi við EES-samninginn. Með frumvarpinu er meðal annars opnað á starfsemi fyrirtækja á borð við Uber og Lyft.

Fallið frá skilyrðum um fjöldatakmarkanir

Í greinargerð með því kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi árið 2017 hafið frumkvæðisathugun á leigubílamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. Eftir samskipti ráðuneytisins við ESA hafi mátt ráða að stofnunin teldi „líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem ekki samræmdust skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti. ESA hafði þá þegar gert athugasemdir við aðgangshindranir að leigubifreiðamarkaðnum í Noregi þar sem löggjöfin er um margt svipuð þeirri íslensku.“ Fram kemur að ESA hafi gefið út rökstutt álit um leigubifreiðalöggjöfina í Noregi og að slíkt sé undanfari dómsmáls fyrir EFTA-dómstólnum bregðist samningsríki ekki við álitinu.

Í framhaldi af þessu var ráðist í vinnu við nýtt frumvarp um leigubifreiðaakstur hér á landi. Fram kemur í greinargerðinni að ekki hafi farið fram heildarmat á eftirspurn á markaði þrátt fyrir þróun samfélagsins og að fjöldi atvinnuleyfa hafi verið svipaður í um aldarfjórðung. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að falla frá skilyrðum um fjöldatakmarkanir leigubifreiða.

Hreyfill með yfir 60% hlutdeild

Í greinargerðinni segir enn fremur að nokkrar leigubifreiðastöðvar séu reknar á Íslandi, „flestar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, þ.e. Hreyfill, Borgarbílastöðin, BSR, Taxi Service, A-stöðin og City Taxi Reykjavík. Þá starfa tvær stöðvar utan þessara svæða en það eru Bifreiðastöð Oddeyrar og Leigubílar Suðurlands. Hreyfill er langstærsta stöðin með yfir 60% markaðshlutdeild á höfuðborgarsvæðinu og næst á eftir kemur BSR með rétt undir 10% hlutdeild.“

Opnað á Uber og Lyft

Með frumvarpinu er opnað fyrir starfsemi þess sem kallað er farveitur, sem eru fyrirtæki á borð við Uber og Lyft. Þessir aðilar verði að uppfylla sömu skilyrði og önnur fyrirtæki á markaðnum, svo sem um gilt rekstrarleyfi og atvinnuleyfi. „Við mótun frumvarps þessa hafa ofangreind sjónarmið verið höfð í huga og hefur markmiðið verið að opna leigubifreiðamarkaðinn fyrir aukinni samkeppni bæði á sviði verðs og þjónustu og skapa skilyrði fyrir nýsköpun í greininni án þess þó að slaka á kröfum hvað varðar gæði og öryggi þjónustunnar. Vonast er til að með afnámi fjöldatakmarkana á takmörkunarsvæðum, afnámi stöðvarskyldu og ítarlegra kvaða um nýtingu leyfis, auk undanþágu frá skyldu til að vera með gjaldmæli þegar þjónusta er seld gegn fyrirframumsömdu föstu gjaldi, skapist skilyrði til að veita fjölbreyttari þjónustu með leigubifreiðum, þar á meðal þjónustu á borð við þá sem veitt er af þekktum farveitum erlendis,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka