Hömlur verða settar á flug

Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

„Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar,“ segir Andri Snær Magnason, rithöfundur, um áhrif loftslagsvakningarinnar á flugsamgöngur á næstu árum. Hann segir miklar breytingar í farvatninu.

„Ég held að Íslendingar þurfi að laga sig að því að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafn margir ferðamenn á landinu á hverjum tíma. Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda heldur muni fólk fara miklu lengur og betur þegar það ferðast,“ segir Andri Snær.

Samsæristal hefur áhrif

Ýtarlega er rætt við Andra Snæ um loftslagsmálin í Morgunblaðinu í dag.

Þar gagnrýnir hann meðal annars þá athygli sem efasemdarfólk um hlýnun af mannavöldum fær í íslenskum fjölmiðlum.

Andri Snær Magnason rithöfundur nærri æskuslóðunum í Árbænum.
Andri Snær Magnason rithöfundur nærri æskuslóðunum í Árbænum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er til dæmis nær aldrei vísindamaður á Alþingi. Það er mjög strangur skóli í vísindunum. Síðan mætir einhver leikmaður í sjónvarpið og ætlar út frá engri þekkingu að segja að íslenskir vísindamenn séu í einhvers konar samsæri um styrki eða ræða um samsæri Sameinuðu þjóðanna um að skattleggja heiminn. Því miður hefur það áhrif á fólk. Þessi orðræða er ekki boðleg,“ segir Andri Snær sem vísar til ummæla Ernu Ýrar Öldudóttur blaðamanns í Kastljósþætti nýverið. 

Skoðanakúgun um loftslagsmálin

Rætt var við Ernu Ýri á mbl.is í kjölfar þáttarins en hún telur loftslagsumræðuna einhliða. Hundruð einstaklinga höfðu samband við hana eftir umræddan Kastljósþátt.

„Þau vildu þakka mér fyr­ir að tala fyr­ir minni af­stöðu í þætt­in­um án þess að láta slá mig út af lag­inu og eru mér sam­mála. Flest­um finnst skoðanakúg­un ríkja um lofts­lags­mál­in og að hóp­ur fólks hafi „eignað sér umræðuna“. Ein­staka hef­ur sagst vera ekki al­veg sam­mála, en all­ir voru óánægðir með hvað þátt­ur­inn var hlut­dræg­ur og hvað það var ójafnt að tefla 12 manns á móti tveim­ur,“ sagði Erna Ýr m.a.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert