„Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar,“ segir Andri Snær Magnason, rithöfundur, um áhrif loftslagsvakningarinnar á flugsamgöngur á næstu árum. Hann segir miklar breytingar í farvatninu.
„Ég held að Íslendingar þurfi að laga sig að því að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafn margir ferðamenn á landinu á hverjum tíma. Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda heldur muni fólk fara miklu lengur og betur þegar það ferðast,“ segir Andri Snær.
Samsæristal hefur áhrif
Ýtarlega er rætt við Andra Snæ um loftslagsmálin í Morgunblaðinu í dag.
Þar gagnrýnir hann meðal annars þá athygli sem efasemdarfólk um hlýnun af mannavöldum fær í íslenskum fjölmiðlum.
„Það er til dæmis nær aldrei vísindamaður á Alþingi. Það er mjög strangur skóli í vísindunum. Síðan mætir einhver leikmaður í sjónvarpið og ætlar út frá engri þekkingu að segja að íslenskir vísindamenn séu í einhvers konar samsæri um styrki eða ræða um samsæri Sameinuðu þjóðanna um að skattleggja heiminn. Því miður hefur það áhrif á fólk. Þessi orðræða er ekki boðleg,“ segir Andri Snær sem vísar til ummæla Ernu Ýrar Öldudóttur blaðamanns í Kastljósþætti nýverið.
Skoðanakúgun um loftslagsmálin
Rætt var við Ernu Ýri á mbl.is í kjölfar þáttarins en hún telur loftslagsumræðuna einhliða. Hundruð einstaklinga höfðu samband við hana eftir umræddan Kastljósþátt.
„Þau vildu þakka mér fyrir að tala fyrir minni afstöðu í þættinum án þess að láta slá mig út af laginu og eru mér sammála. Flestum finnst skoðanakúgun ríkja um loftslagsmálin og að hópur fólks hafi „eignað sér umræðuna“. Einstaka hefur sagst vera ekki alveg sammála, en allir voru óánægðir með hvað þátturinn var hlutdrægur og hvað það var ójafnt að tefla 12 manns á móti tveimur,“ sagði Erna Ýr m.a.