Stórhættuleg ísing er á götum og stígum á höfuðborgarsvæðinu og hafa starfsmenn Reykjavíkurborgar verið að störfum frá því klukkan þrjú í nótt að salta, sanda og setja pækil á stíga, gangstéttir og götur.
Hitastigið er rétt fyrir ofan frostmark en rétt fyrir neðan frostmark á jörðu. Fólk er beðið um að fara mjög varlega þegar það fer af stað í morgunsárið þegar enn er myrkur.
Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið í dag: Hæg vestlæg átt og stöku slydduél eða él. Hiti nálægt frostmarki. Suðvestan 3-8 m/s á laugardag og él, en slydduél eða skúrir um kvöldið. Heldur hlýnandi.
Bætt við klukkan 7
„Förum varlega því það er víðast hvar stórhættuleg ísing á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í íbúðagötum og göngu - hjólreiðastígum. Minnum svo ökumenn á að skafa vel af öllum rúðum ökutækja sinna. Munum einnig að huga að gangandi vegfarendum í svartasta skammdeginu. Svo má ekki gleyma að minnast á endurskinsmerki - þau auka öryggi gangandi og hjólandi til muna!“ segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.