„Það er vont að sjá hvernig hreyfingin sem ég einu sinni trúði að gæti breytt samfélaginu til hins betra verður lit- og máttlausari með hverjum deginum,“ skrifar Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi VG, um þróun mála hjá VG.
Sóley lét þessi ummæli falla á Facebook-síðu sinni.
Tilefnið var úrsögn Andrésar Inga Jónssonar úr þingflokki VG. Með því fór meirihluti ríkisstjórnarinnar úr 35 mönnum í 34.
„Líklega ætti ég að að fagna þessari frétt, en gleðin er aðeins tregablandin. Það er vont að sjá hvernig hreyfingin sem ég einu sinni trúði að gæti breytt samfélaginu til hins betra verður lit- og máttlausari með hverjum deginum. Að því sögðu óska ég Andrési til hamingju með þessa hugrökku og hárréttu ákvörðun!“ skrifaði Sóley.
Óánægja með loftslagsstefnuna
Andrés Ingi vék meðal annars að loftslagsmálunum er hann skýrði úrsögn sína á Facebook-síðu sinni.
„Aðkallandi aðgerðir til að sporna við hamfarahlýnun hafa ekki gengið jafn langt og ég tel nauðsynlegt og sjálfsagt í ríkisstjórn undir forystu grænnar hreyfingar. Síðastliðin tvö ár hef ég upplifað að samstarfið hefti mig í að vinna af fullum krafti fyrir þeim hugsjónum sem ég var kosinn fyrir,“ skrifaði hann m.a.
Rætt er við Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Þar bregst hann við gagnrýni á fyrirhugaða aukningu í farþegaflugi til og frá landinu.